Síðuskóli gerði sér lítið fyrir og sigraði í Akureyrarriðli Skólahreystis 2015. Í skólanum er mikil hefð fyrir sterkri þátttöku í Skólahreysti en krakkarnir mættu þó harðri samkeppni frá keppendum úr Giljaskóla og öðrum skólum Akureyrar. Keppendur Síðuskóla náðu jöfnum og góðum árangri í greinum undankeppninnar en þetta er annað árið í röð sem skólinn kemst í úrslit.
Þjálfari liðsins, íþróttakennarinn Elvar Sævarsson hefur tekið þátt í Skólahreysti frá því að Síðuskóli sendi fyrst lið. Aðrir liðsmenn eru hinsvegar allir að taka þátt í fyrsta skipti og eru allir fæddir árið 2000.
Snævar Atli Halldórsson og Hrund Nilima Birgisdóttir keppa í hraðabraut fyrir hönd Síðuskóla. Snævar æfir sund og hefur mikinn áhuga á fótbolta og frjálsum íþróttum. Elmar Blær Hlynsson er upphýfinga- og dýfumeistari liðsins. Hann æfir handbolta en hefur áhuga á hverskyns íþróttum, ferðalögum og veiðum. Ágústa Dröfn Pétursdóttir sér síðan um armbeygjur og hreystigreip fyrir liðið. Hún æfir fimleika og frjálsar og á flotta fyrirmynd í Auði systur sinni sem einnig hefur keppt í Skólahreysti.
Elvar hefur mikla trú á krökkunum og segir að lykillinn að velgengninni felist í dugnaði og atorkusemi þeirra.
„Ég myndi segja að þeirra styrkleikar séu á andlega sviðinu, þau eru dugleg að mæta á æfingar og undirbúa sig vel, það er það sem mestu máli skiptir í þessu,“ segir Elvar. Hann þakkar sterkum keppendum á fyrri árum fyrir að ávallt gangi vel að manna liðið og segir að mikill áhugi sé fyrir keppninni innan skólans.
„Gott gengi smitar útfrá sér og það er mikil stemning fyrir þessu hjá okkur.“