Dalvíkurskóli vann Norðurlandsriðilinn í Skólahreysti og komst með því í úrslit þetta árið. Lið skólans hefur verið sterkt undanfarin ár, en þetta er í þriðja sinn sem skólinn kemst í úrslit.
Það eru systkinabörnin Arnór Snær Guðmundsson og Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir sem keppa í hraðaþraut fyrir hönd skólans, en þau eru bæði mikið íþróttafólk. Er þetta í þriðja skipti sem Arnór keppir í Skólahreysti, en hann er í landsliðshópi GSÍ í golfi ásamt því að æfa skíði og fótbolta. Hann hefur orðið Íslandsmeistari bæði á skíðum og í golfi. Snædís tekur hins vegar þátt í fyrsta skipti í ár, en eins og frændi hennar æfir hún bæði fótbolta og golf.
Hinn helmingur liðsins samanstendur af Mjöll Sigurdísi Magnúsdóttur sem keppir í armbeygjum og hreystigreipi og Viktori Huga Júlíussyni sem sér um upphífingar og dýfur. Mjöll keppir nú í þriðja skipti, en hún æfir fimleika, fjallgöngur og klifur og gekk meðal annars á Hvannadalshnjúk 14 ára gömul. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem Viktor tekur þátt í keppninni. Hann æfir fimleika, frjálsar íþróttir og fótbolta, ásamt því að stunda snjóbretti, hlaupahjól og parkour.
Ása Fönn Friðbjarnardóttir, þjálfari liðsins, segir stemninguna góða og liðið tilbúið í keppnina. „Liðinu gengur vel að undirbúa sig. Við erum ekki búin að eiga margar skipulagðar æfingar saman því þetta er allt íþróttafólk sem er á æfingum svo það er erfitt að koma aukaæfingum fyrir í dagskránni þeirra. En þau eru búin að vera dugleg að æfa sig sjálf,“ segir hún.
Þá segir hún stuðningsmennina einnig tilbúna í slaginn, en í dag hafi verið rekinn lokahnykkurinn í að búa til plaköt og gera allt tilbúið. Mikil stemning ríki í skólanum og allir séu spenntir að koma suður og fylgjast með keppninni, en alls fara 50 manns frá skólanum.
Spurð um áherslur fyrir keppnina segir Ása Fönn það skipta mestu máli að liðið geri sitt besta og hafi gaman af, burtséð frá því í hvaða sæti þau lenda.