Ætlar að reyna við Íslandsmet

Finnur Helgason ætlar að reyna við Íslandsmetið í upphífingum.
Finnur Helgason ætlar að reyna við Íslandsmetið í upphífingum. ljósmynd/Skólahreysti

Réttarholtsskóli landaði í fyrsta sinn sæti í úrslitum í Skólahreysti í ár en skólinn kom inn sem annar af tveimur skólum með bestan árangur í öðru sæti undankeppninnar. Liðið sýndi mjög góðan og jafnan árangur í öllum greinum og var mjög nálægt því að sigra í riðlinum. Sterk hefð er fyr­ir þátt­töku í keppn­inni inn­an skól­ans og er þar m.a. starf­rækt­ur sér­stak­ur valáfangi í Skóla­hreysti. 

Jóhann Gunnar Einarsson, þjálfari liðsins, segir undirbúning þó ekki hafa gengið áfallalaust fyrir sig, enda hafi einn liðsmanna þurft að draga sig úr keppni á síðustu stundu. Var það Hlín Eiríksdóttir sem tók þátt í hraðaþraut í undankeppninni, en hún þarf að keppa með unglingalandsliðinu í fótbolta sama dag og Skólahreysti fer fram, og þurfti því að kalla til varamann - sem þó er vel undirbúinn og klár í slaginn. Er það Sigrún Margrét Sigurðardóttir, en hún hefur tekið þátt einu sinni áður í Skólahreysti. Sigrún æfir fimleika og varð meðal annars Íslandsmeistari í þriðja þrepi árið 2013. Auk þess stundar hún skíði af kappi og hefur mikinn áhuga á íþróttum. Ásamt Sigrúnu keppir Óskar Le Qui Khuu Júlíusson í hraðaþraut, en þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur þátt í keppninni. Óskar æfir fótbolta, en hefur einnig mikinn áhuga á spretthlaupi, sundi, nútímadansi og skokki.

Katarína Eik Sigurjónsdóttir sér um armbeygur og hreystigreip fyrir hönd liðsins, en hún tekur þátt í fyrsta sinn í ár. Katarína æfir klifur, sem er hennar aðaláhugamál auk þess sem hún nýtur þess að stíga á skíði. Þá sér Finnur Helgason um upphífingar og dýfur, en hann tekur nú þátt í annað skipti í keppninni. Finnur æfir fótbolta, en hefur mikinn áhuga á lyftingum og ætlar sér að reyna við Íslandsmetið í upphífingum.

„Hann stefnir á Íslandsmetið og ætlar að standa við stóru orðin þar. Hann var grátlega nálægt því síðast, en þá var hann búinn að vera veikur svo hann ætlar að setja markið hærra núna og við fylgjumst spennt með því,“ segir Jóhann og bætir við að Finnur hafi tekið fimm hundruð upphífingar í páskafríinu.

Þá segir Jóhann mikla stemningu ríkja í skólanum, og stuðningsfólk frá skólanum muni fjölmenna á keppnina á miðvikudag. „Við erum búin að fylla tvær rútur og það er að myndast svakaleg stemning. Það verður haldinn fundur hjá stuðningsmannaliðinu um hvernig þetta verður pumpað upp,“ segir hann. „Það var frábær stemning í undankeppninni þar sem við unnum fyrir stuðningsmenn dagsins, svo það verður ekkert gefið eftir.“

Loks segir Jóhann alla afar stolta af hópnum sem kom Réttarholtsskóla í úrslit í fyrsta skipti, og mikill spenningur sé fyrir keppninni. „Við erum fyrst og fremst mjög stolt af því að vera komin í úrslit og ætlum að njóta þess að vera í beinni útsendingu og hafa gaman af þessu.“

Lið Réttarholtsskóla komst í fyrsta sinn í úrslit í skólahreysti.
Lið Réttarholtsskóla komst í fyrsta sinn í úrslit í skólahreysti. ljósmynd/Skólahreysti
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar