Af hverju leit Katrín svona vel út?

Katrín hertogaynja steig brosmild og glæsileg út á tröppur sjúkrahússins aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hún fæddi dóttur sína. Hvernig tókst henni að vera svona fersk og geislandi, virðast úthvíld?

Það er ekkert óvenjulegt við það að nýbakaðar mæður geisli af hamingju. Svo má ekki gleyma því að Katrín hefur sér til aðstoðar teymi sérfræðinga, s.s. hárgreiðslumeistara, förðunarfræðing og tískuráðgjafa. Þá hefur hún tvo persónulega aðstoðarmenn.

Katrín er með sína eigin hágreiðslukonu, Amöndu Cook Tucker. Konan sú hefur um árabil séð um að klippa og greiða prinsunum Vilhjálmi og Harry. Í dag fylgir hún Katrínu t.d. í hvert sinn sem hún fer til útlanda. 

Það var einmitt koma Tucker á fæðingardeildina á St Mary's-sjúkrahúsinu sem gaf fyrstu vísbendinguna um að Katrín og Vilhjálmur myndu sýna dóttur sína opinberlega strax daginn sem hún fæddist. Tucker greiddi Katrínu einnig er hún fæddi Georg. Og þegar hún mætti með töskuna sína á sjúkrahúsið í gær fór spennan að magnast.

Katrín notar einnig aðra hárgreiðslumeistara, m.a. þá Richard Ward og Rossano Ferretti en þar sem Tucker er náinn vinur fjölskyldunnar virðist hún hafa treyst henni best til að greiða sér eftir barnsfæðinguna. Í frétt Telegraph segir að hugsanlega hafi Tucker einnig aðstoðað Katrínu við förðunina í gær. Katrín er reyndar þekkt fyrir að sjá sjálf að mestu um eigin förðun. Hún velur yfirleitt alltaf að vera með náttúrulega og létta förðun.

Þegar kom að því að því að velja fötin sem hún myndi klæðast er hún kynnti dóttur sína fyrir umheiminum varð einn af eftirlætis hönnuðum hennar, Jenny Packham, fyrir valinu. Packham aðstoðaði Katrínu einnig við fatavalið er Georg kom í heiminn.

Kjóllinn í gær var mjög sumarlegur, skreyttur gulum, litlum blómum. 

Persónulegur aðstoðarmaður Katrínar, Natasha Archer, aðstoðaði svo hertogaynjuna við ýmislegt annað á sjúkrahúsinu. Archer hefur unnið um hríð fyrir kóngafjölskylduna. 

Þá er Katrín með aðra aðstoðarkonu, einkaritara, Rebeccu Deacon. Í frétt Telegraph segir að hún hafi verið meðal þeirra fyrstu sem fengu að sjá litlu prinsessuna eftir að hún kom í heiminn í gærmorgun. Deacon vann áður fyrir góðgerðarsamtök Harrys prins og er því vel kunn fjölskyldunni.

Þá er Jason Knauf upplýsingafulltrúi nýjasti meðlimur teymis hertogans og hertogaynjunnar. Hann vann áður sem upplýsingafulltrúi Royal Bank of Scotland.  Knauf er bandarískur og nam m.a. stjórnmálafræði í Nýja Sjálandi. Hann sá um að skipuleggja alla dagskrána í gær sem og síðustu vikur og einnig komandi vikur. Eitt af hlutverkum hans var að sjá til þess að fjölmiðlamenn kæmust að sjúkrahúsinu, en þó án þess að trufla heilbrigðisstarfsfólkið.

Þrátt fyrir allt þetta er Katrín ekkert öðruvísi en aðrar nýbakaðar mæður. Hún er geislandi glöð með dóttur sína en mun næstu daga taka það rólega á heimili sínu í Kensington-höll. Nokkuð líklegt er að hún muni hafa barnfóstru sér til aðstoðar, líkt og hefð er fyrir í konungsfjölskyldunni.

Katrín hertogaynja fæddi barn þeirra Vilhjálms kl. 8.34 í gærmorgun. Hún kom svo út af sjúkrahúsinu með dótturina kl. 6.10 síðdegis, eða um tíu tímum eftir að litla prinsessan kom í heiminn.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Einsettu þér að halda jafnvægi á milli einkalífs og vinnunnar og þá koma hlutirnir af sjálfu sér. Ekki missa kjarkinn þó illa gangi að fjármagna verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Kathryn Hughes
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Einsettu þér að halda jafnvægi á milli einkalífs og vinnunnar og þá koma hlutirnir af sjálfu sér. Ekki missa kjarkinn þó illa gangi að fjármagna verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Kathryn Hughes
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup