„Ég er mjög ánægð með þetta verk,“ segir Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, um nýtt verk sem Guerrilla Girls unnu að beiðni hátíðarinnar og afhjúpað fyrr í dag, en verkið er staðsett á austurhlið Tollhússins.
„Verkið samanstendur af spurningum á ensku og er sett upp eins og krossapróf,“ segir Hanna og minnir á að Guerrilla Girls kalli sig „samvisku listheimsins“ og beiti sláandi tölfræði og beittum húmor til að afhjúpa kerfisbundna mismunun og spillingu í jafnt listum og pólitík.
Í verkinu er einfaldlega spurt um mögulegar ástæður þess að 87% fjármagns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands renni til karlmanna. Boðið er upp á þrjá svörmöguleika, a, b, og c, og í síðasta svarmöguleikanum stendur: Það er mismunun (e. It´s discrimination).
„Það skiptir miklu máli að fólk átti sig á því að verkið felur ekki í sér árás á karlkyns kvikmyndagerðarmenn. Þetta verk afhjúpar þá staðreynd að við höfum ekki staðið við loforðið sem við gáfum okkur fyrir 100 árum um að lifa í réttlátu þjóðfélagi þar sem allir hefðu jafnan rétt. Við höfum staðið alveg sérstaklega illa við þetta loforð í kvikmyndagerð. Þetta verk felur í sér hvatningu um að gera betur,“ segir Hanna.
Verkið stendur til loka Listahátíðar í Reykjavík 7. júní. Aðspurð segir Hanna aldrei að vita nema það fái framhaldslíf á erlendri grundu. „Verkið er eign Guerrilla Girls og þær sýna um allan heim. Þetta verk gæti ratað inn á sýningar þeirra síðar meir,“ segir Hanna að lokum.