Skerlákur Holmes var oft nefndur meistari afleiðslunnar vegna hæfileika sinni í að draga ályktanir af vísbendingum. Uppistandari í Los Angeles gerir nú tilkall til sama titils en hann hefur komist að því hvaða dag Ice Cube rappaði um í lagi sínu „Today was a good day“. Héðan í frá verði 20. janúar því hinn opinberi góði dagur.
Lagið er eitt þekktasta lag Ice Cube sem man fífil sinn fegurstan á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Í því lýsir rapparinn degi sem virðist hafa verið hinn ánægjulegasti fyrir hann. Ekki nóg með að körfuboltaliðið LA Lakers hafi unnið Seattle Supersonics heldur þurfti hann ekki einu sinni að nota AK-hríðskotabyssuna sína.
Uppistandarinn og hjólabrettaspaðinn Donovan Strain lagðist yfir texta lagsins ákallaði anda Skerláks Holmes og leiddi af honum hvenær þessi góði dagur átti sér stað.
Fyrir utan sigurleik Lakers gegn Supersonics nefnir Ice Cube í laginu að hann hafi sótt vin sinn „Short dog“ heim en þar hafi menn horft á sjónvarpsrásina MTV Raps og þar að auki hafi ekki verð nein reykjarmengun, sem einkennir Los Angeles, þennan dag.
Strain bendir á að smáskífan með laginu hafi komið út 23. febrúar árið 1993. Sjónvarpsstöðin MTV RAPS hafi fyrst verið hleypt af stokkunum 6. ágúst 1988 og aðeins séu fjórar mögulegar dagsetningar á þessu tímabili þar sem engin reykjarmengun var í LA sama dag og Lakers unnu Supersonics.
Á öðrum stað í laginu nefnir Ice Cube að hann hafi fengið skilaboð í símboða sinn þess efnis að vinkona hans Kim væri til í tuskið þá um kvöldið. Strain ályktar að þar sem að símboðar hafi ekki staðið almenningi til boða fyrr en á 10. áratuginum komi aðeins tvær dagsetningar til greina: 18. janúar 1991 eða 20. janúar 1992.
Síðasta stykkið í púsluspilið var kvikmyndin „Boyz in the Hood“ sem Ice Cube lék í en hún kom út sumarið 1991. Hún var tekin upp á síðari helmingi ársins 1990 og snemma árs 1991. Því ályktar Strain að eini dagurinn sem MTV RAPS var í gangi, engin reykjarmengun var í LA, Lakers unnu Supersonics, símboðar voru til sölu og Ice Cube var ekki bundinn annars staðar hafi verið 20. janúar 1992. Dagurinn verði hér eftir nefndur opinber góður dagur.