Vann aldrei Vælið í Verzló en keppir nú í Eurovision

María Ólafsdóttir
María Ólafsdóttir EBU/Thomas Hanses

María Ólafsdóttir, keppandi Íslands í Eurovision, hefur í nógu að snúast. Þegar ég hitti hana í anddyrinu á hótelinu hennar mættu mér finnski söngvarinn og Jónatan Garðarsson, sem fer fyrir íslensku sendinefndinni - við allir þreyttir eftir langa daga og lítinn svefn.

Það sama var alls ekki hægt að segja um Maríu, sem geislaði og hló sínum fallega hlátri meðan hún svaraði spurningum blaðamannanna sem töluðu við hana á undan mér. Ég átti bókað kortér með henni klukkan 10:30; hún hafði verið í viðtölum síðan löngu fyrr og var örugglega miklu lengur. Það biðu allavega tveir eftir að tala við hana þegar spjalli okkar lauk.

 „Hæ“ sagði hún glaðlega þegar ég heilsaði henni, og það var eins og hún leyfði sér að vera örlítið afslappaðri þegar hún heyrði að ég var Íslendingur, og hló þegar ég segi henni að hún og bróðir minn hafi verið í sama árgangi í Verzló. „Vá hvað ég sé það núna!“

Umræddur bróðir gaukaði því að mér að María hefði aldrei unnið Vælið, innanskólasöngkeppnina í Verzló.

María á rauða dreglinum.
María á rauða dreglinum. Elena Volotova (EBU)

Lenti tvisvar í öðru sæti

„Já, ég lenti tvisvar í öðru sæti,“ sagði María. „Keppti tvisvar og lenti tvisvar í öðru sæti,“ bætir hún við. „Kannski valdi ég bara vitlaus lög í keppnunum. Ég fékk bara enn stærra tækifæri núna með því að fara í Eurovision.“

Eurovisionaðdáendur hafa eflaust tekið eftir að María hefur mjög vaxið í hlutverki sínu sem Eurovisionfari, allt frá því hún sigraði í undankeppninni heima og þangað til á seinni æfingunni nýliðinn laugardag. Fyrri og seinni æfingin hér úti voru í raun eins og svart og hvítt.

Hvað breyttist eiginlega?

„Á fimmtudeginum var allt svo ótrúlega nýtt og maður var að taka svo mikið inn. Ég var aðallega bara að pæla í myndavélunum, ég var ekkert að hugsa um sönginn. Eftir á fatta ég hvað ég var í raunninni „tense“ og að einbeita mér að fullt af öðrum hlutum en söngnum. Á laugardaginn fór ég inn með það hugarfar að slaka á. Þá fór ég líka meira að einbeita mér að því að syngja og fíla mig inn í lagið.“

Kaos á tæknifólkinu

Valgeir Magnússon, Valli Sport, situr við hliðina á Maríu meðan á viðtalinu stendur. Hann er nokkurs konar umboðsmaður hennar hérna úti, sér um allt sem við kemur fjölmiðlum og fleiru, svo María geti einbeitt sér að því sem hún gerir best. „Það var svo mikið kaos í tæknifólkinu á fyrri æfingunni,“ skýtur Valli inn í samtalið. „Það bjó til öðruvísi aðstæður.“

„Það var bara allt gert rangt á fyrri æfingunni,“ segir María. „Maður sem átti að fara öðru meginn við mig fór hinum megin,“ segir María, og bendir á að stundum hafi hún ætlað að líta í myndavélar sem hafi hreinlega ekki verið þar sem þær áttu að vera. „Það var miklu betra núna á laugardaginn. Ég þurfti samt smá að breyta kóreógrafíunni því það virtist vera að þau bara náðu ekki að þau áttu að fara hinn hringinn, en það er betra að gera það þannig heldur en að vera ekki í mynd,“ segir María og hlær.

En er þetta ekki ótrúlega mikið álag?

„Jú, en það er auðvitað hugsað mjög vel um mig þannig að ég kemst alveg vel í gegnum þetta. En þetta er mikið áreiti og maður þarf að vera mjög einbeittur og muna eftir einföldum hlutum eins og að borða og sofa og að slappa stundum af,“ segir hún og brosir.

Hún segir að ástralska lagið sé uppáhaldslagið hennar. „Ég vona að þeir vinni. Svo fíla ég sænska lagið líka og hélt með þeim fyrst þangað til ég sá Ástralíu á sviði, þá gat ég ekki hætt að hugsa um það atriði, því hann er svo ótrúlega góður.“

„Er þetta grín?“ 

Er eitthvað sem er öðruvísi en þú bjóst við að það væri í þessari keppni?

„Það var búið að segja mér mikið hvernig þetta væri, þannig að ég var búin að undirbúa mig fyrir margt af þessu. Þetta er samt einhvern veginn miklu stærra en maður áttar sig á, þó svo það væri búið að segja mér hversu stórt þetta væri. Eins og þegar maður kemur út eftir æfingu þá er bara fólk sem bíður hinum megin við grindverkið með myndir af manni og maður bara „ha?!““ segir María, fórnar höndum og verður hissa á svipinn til að undirstrika þá miklu undrun sem hún upplifir.

„Það er samt alveg frábært. Ég horfði samt bara á Vall og sagði: „Er þetta grín?““ segir hún og skellihlær. „En svona er þetta víst, sumir lifa bara fyrir Eurovision.“

Valli situr við hliðina á henni og brosir allan hringinn. „Þetta er surprise fyrir alla sem koma. Það er alveg sama hvað maður reynir að undirbúa fólk, þetta er alltaf í tíunda veldi við það sem fólk heldur. Þetta er stærsta söngvakeppni í heimi, þetta er stærsti sjónvarpsþáttur í heimi og fólk bara áttar sig ekki á því hvað það er stórt að vera í stærsta sjónvarpsþætti í heimi,“ segir hann.

Kannski ekki orðin róleg, en rólegri

Það er eins og María átti sig örlítið betur á því hversu stór þessi keppni er þegar Valli segir þetta, því hún sekkur örlítið í sætinu sínu þegar Valli útskýrir þetta fyrir mér. „Valli, ég þakka fyrir,“ segir hún og þau hlæja bæði.

Hún vill ekkert segja til um hvernig hún heldur að sér muni ganga í keppninni. Markmiðið sé auðvitað að komast í gegnum undankeppnina á fimmtudaginn.

„Ég var bara mjög fegin eftir aðra æfinguna að heyra viðbrögðin, því það var umtalað eftir fyrstu æfinguna að þetta hafi ekki gengið nógu vel hjá mér,“ segir hún, en blaðamenn í höllinni klöppuðu fyrir Maríu eftir fyrsta rennsli á seinni æfingunni. „Eftir viðbrögðin á laugardaginn er ég orðin róleg, þannig.“

Hún er fljót að leiðrétta sig: „Kannski ekki róleg, en allavega rólegri,“ segir hún og hlær.

Hún segir fólk fyrst og fremst eiga að njóta þess að fylgjast með keppninni. „Þetta kemur allt öðruvísi út í sjónvarpi heldur en á einhverri myndavél úti í sal. Það kemur ekki þannig út. Fólk verður bara að vera rólegt og njóta.“

Keppnin komið Maríu á kortið

Þátttaka í Eurovision hefur þegar komið Maríu á kortið, í það minnsta á Íslandi. „Ég var alveg óþekkt fyrir á Íslandi, þannig að þetta er nú þegar mjög stórt fyrir mig og leiðir vonandi eitthvað lengra.“ María er óneitanlega ótrúlega góð söngkona, og maður veltir fyrir sér hvernig svona mikil rödd geti komið úr svona litlum líkama „Ég veit það ekki,“ segir hún næstum því afsakandi og hlær. „Ég bara hef ekki hugmynd.“

Skóleysi hennar hefur vakið athygli, en María hefur að eigin sögn alla tíð sungið berfætt. „Við vorum að tala um þetta í undankeppninni heima, hvort ég ætti að vera í skóm eða ekki. Mig langaði ekki að vera á hælum en samt, það er flott að vera á hælum en dregur athyglina frá söngnum. Ég sagðist því bara vilja vera berfætt. Svo bara var ég berfætt.“

Skóleysið nær hins vegar lengra aftur, að minnsta kosti aftur til daga hennar í Verzlunarskólanum. „Það er bara eitthvað geðveikt þægilegt við labba bara inn á sviðið berfætt og þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu. Þetta er aðallega bara þægilegt,“ segir María.

Andres Putting (EBU)
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki nóg að fá hugmyndir ef þú hrindir þeim ekki í framkvæmd. Farðu út í náttúrna. Kannski læknast efinn ef þú gerir einhverjum greiða.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Kathryn Hughes
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki nóg að fá hugmyndir ef þú hrindir þeim ekki í framkvæmd. Farðu út í náttúrna. Kannski læknast efinn ef þú gerir einhverjum greiða.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Kathryn Hughes
5
Torill Thorup
Loka