Kvikmyndahátíðin í Cannes hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að víkja konum á flatbotna skóm af rauða dreglingum. Mun atvikið hafa átt sér stað við frumsýningu nýjustu kvikmyndar Cate Blanchett, Carol, og hefur BBC eftir Screen Daily að talsmenn hátíðarinnar hafi staðfest að skylda hafi verið að vera í háhæluðum skóm á rauðum dreglum hennar.
Framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir hinsvegar að um orðróm sé að ræða sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og að ekki sé talað sérstaklega um hæla í kröfum sem hátíðin gerir um klæðaburð.
Í frétt Screen Daily er haft eftir ónefndum aðila að konu sem viðkomandi þekkti hafi verið vísað frá. „Aðili sem ég þekki var snúið frá fyrir að vera í fínum flatbotna skóm, ekki einhverju sem þú myndir vera í á ströndinni.“ Segir heimildarmaðurinn að konunni hafi verið sagt að fara og kaupa viðeigandi skó og koma aftur.
Leikstjórinn Asif Kapadia tísti í kjölfar fréttar Screen Daily að eiginkonu hans hefði verið snúið frá í upphafi fyrir slíkar sakir en verið leyft að koma inn að lokum.