Samþykki er eins og tebolli.
Þessi setning kann að virka furðuleg en myndband með þessum skilaboðum hefur farið víða síðastliðinn mánuð. Í dag hafa íslenskar konur á Facebook hópnum Beauty tips deilt reynslu sinni af kynferðisofbeldi undir myllumerkinu #þöggun. Þó svo að sögurnar séu óþægilegar eru þær mikilvægar enda minna þær á mikilvægi þess að ræða samþykki í kynlífi.
Í gegnum árin hefur gjarnan verið bent á að nei þýði nei og auðvitað ætti málið ekki að vera flóknara en svo. Því miður virðast hinsvegar margir enn treysta á hið gamalkunna orðtak „Þögn er sama og samþykki“ sem á að sjálfsögðu aldrei við þegar kemur að kynlífi.
Mikilvægi þess að fá já þegar kemur að því að stunda kynlíf ætti að vera kýrskýrt en skyldi einhver vera í vafa segir myndbandið hér að neðan allt sem segja þarf.
Í myndbandinu er te notað sem myndhverfing fyrir kynlíf og skilaboðin eru einföld. Ekki gefa einhverjum te sem ekki hefur samþykkt, með skýrum hætti, að drekka það.
Frétt mbl.is: Segir sögu sína: Varð fyrir hópnauðgun 17 ára