Bandaríska hljómsveitin Mastodon, sem kemur fram á íslensku tónlistarhátíðinni Rokkjötnum, brá sér út fyrir þægindarammann við tökur á nýjustu þáttaröð Game of Throne. Þáttur þar sem þeir Brann Dailor, Bill Kelliher, og Brent Hinds léku svokallaða „white walkers“ var sýndur Vestanhafs í nótt en þeir eiga einmitt lagið „White Walker“ á Game of Thrones listanum „Catch the Throne Vol.2. Var hljómsveitinni boðið sérstaklega að leika í þáttunum af framleiðandanum Dan Weiss sem er aðdáandi hljómsveitarinnar.
„Ég horfði á bestu vini mína, Brent og Bill, myrta beint fyrir framan mig á meðan ég sjálfur var stunginn í magann og skorinn margsinnis á háls, og mér var alveg sama. Það lét mig elska að vera í Mastodon enn meira,“ sagði Brann Dailor um þátttöku þeirra félaga í þáttunum við Pitchfork.
Forsala á Rokkjötna hefst á hádegi í dag á Tix.is en hátíðin fer fram þann 5. september í Vodafonehöllinni.