„Ég er að verða 37 ára og mér fannst ég ekki eiga samleið með þessum stelpum. Það vantaði umræðugrundvöll fyrir konur sem hafa kannski upplifað aðeins meira í lífinu en það sem þær hafa gert,“ segir Auður Helgadóttir um hópinn Beauty tips en hún stofnaði á dögunum nýjan slíkan hóp þar sem eingöngu konur yfir þrítugu fá inngöngu.
Upprunalegi hópurinn hefur vakið mikla athygli síðasliðna mánuði og var leiðandi í frelsun geirvörtunnar (#freethenipple) og í því að berjast gegn þöggun fórnarlamba kynferðisofbeldis (#þöggun) en er í grunninn svæði þar sem konur geta skipst á ráðum, sögum og skoðunum um allt milli himins og jarðar. Ungar konur í kringum tvítugt en einnig allt niður í fermingaraldur eru einna mest áberandi á síðunni en það er þó ekki vegna þess að hörgull sé á konum yfir þrítugu í hópnum.
„Ég hafði lítinn áhuga á að tjá mig þarna inni,“ segir Auður og er fljót að bæta við að það sé þó ekki vegna vantrausts gagnvart stúlkunum og að henni finnist upprunalegi hópurinn mjög flottur. „Það er bara rosalegur munur á því að vera tvítug og 37 ára. Við eigum allar okkar stráka- eða sambandsvandamál en við sem eldri erum gætum líka viljað tala um fjármál, skilnað og barnauppeldi sem dæmi.“
Auður stofnaði hópinn Beauty tips 30+ rétt fyrir helgi og eru meðlimir um 2.500 talsins þegar þetta er skrifað.
„Ég hef ekki undan því að samþykkja umsóknir í hópinn. Þær eru rosalega duglegar að tjá sig, eru ófeimnar og mjög ánnægðar með að það sé komin „eldri týpa“ af hópnum,“ segir Auður. Hún segir nokkra karlmenn hafa reynt að fá aðgöngu í hópinn en að þeim sé sparkað öfugum út enda sé það ein af grundvallarreglum hópsins að þar séu aðeins konur.
Hvað umræðu síðustu daga um kynferðisofbeldi varðar segir Auður að engin innlegg með slíkum reynslusögum hafi enn komið inn. Mest hefur borið á slíkum sögum frá yngri notendum upprunalega Beauty tips hópsins og segir Auður að sig gruni að þær sem eldri eru haldi sig frekar til hlés vegna ungs meðalaldurs notenda. „Ég er eiginlega bara að bíða eftir að umræðan byrji í eldri hópnum. Ég vil ekki vera að ýta þessu á þær heldur frekar að þær finni það hjá sjálfum sér. Ég yrði ekki hissa ef það kæmi til þess.“
Auður segir stærstu umræðuna til þessa hafa snúist um dræma stefnumótamenningu á Íslandi þar sem yfir 100 athugasemdir hafi verið gerðar við upprunalegu færsluna. „Þetta var mjög fjörugt, alveg dásamlegt. Uppbyggingin er eins og á upprunalega hópnum en innihaldið er öðruvísi. Margar eru t.d. komnar með kannski tvö – þrjú börn og vita ekki hvernig þær eiga að fara að því að deita. Þú ert ekkert frjáls til að hoppa út einn tveir og tíu.“
Auður segir engin umræðuefni bönnuð og að einu grundvallarreglurnar sem settar hafi verið snúi að því að aldurstakmörk séu virk og að karlmenn séu bannaðir. „Í hinum hópnum eru reglur um að það megi ekki selja en þær reglur koma bara seinna ef það er þörf á þeim. Þær eru duglegar við að benda mér á ef einhver er ekki orðin nógu gömul ða eitthvað slíkt.“