Breski sjónvarps- og útvarpsmaðurinn Chris Evans mun stýra bílaþáttunum vinsælu Top Gear næstu þrjú árin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BBC. Evans kveðst spenntur að takast á við nýja hlutverkið og segir Top Gear vera „sinn uppáhalds sjónvarpsþátt“.
„Ég lofa að gera allt sem í mínu valdi stendur til að virða það sem gert hefur verið í þáttunum hingað til og gera þá enn betri,“ segir Evans í tilkynningunni.
Áður hafði komið fram orðrómur um að Evans myndi taka við stöðunni, en þá neitaði hann því staðfastlega. Mannabreytingarnar koma til eftir að þáttastjórnandinn vinsæli Jeremy Clarkson var látinn fjúka fyrr á árinu fyrir að ráðast á framleiðanda. Félagar hans, þeir James May og Richard Hammond, hafa tilkynnt að þeir hafi ekki áhuga á að vinna að þáttunum fái þríeykið ekki að haldast saman.
Óljóst er hvernig fyrirkomulag næstu þátta verður, en ekki hefur verið gefið út hvort fleiri gangi til verksins með Evan, eða hvort þeim verði jafnvel skipt út í hverri viku.