Leikstjórinn Sam Mendes, sem leikstýrir Spectre, nýjustu James Bond-myndinni, sagði í viðtali við BBC að honum hafi ekki fundist leikarinn Daniel Craig passa í hlutverk James Bond þegar að hann tók fyrst við hlutverkinu. Mendes segir að honum hafi fundist hugmyndin skelfileg í upphafi en nú hafi hlutverkið þróast með leikaranum og fari honum vel.
„Craig lék í myndinni Road To Perdition sem ég leikstýrði fyrir fimmtán árum síðan í Chicago. Þegar hlutverk James Bond losnaði fannst mér það afleidd hugmynd að fá Craig í það. Fyrir mér var James Bond andstæðan við Craig, mér fannst ástríða og heiðarleiki Craigs sem leikara ekki passa við hlutverkið. En svo þegar að ég sá myndina í bíó fattaði ég að þetta hafði allt verið bull í mér.“
Mendez leikstýrði Craig einnig í myndinni Skyfall árið 2012. Hann segist þó ekki ætla að taka að sér þriðju myndina. „Ég neitaði reyndar þegar ég var beðinn um að leikstýra Spectre en hér er ég.“