Mikið var um dýrðir á opnunarhátíð Hinsegin daga í Silfurbergi í Hörpu í kvöld. Hátíðin hefur lengi verið eitt stórt hinsegin ættarmót, að sögn skipuleggjenda, þar sem gamlir vinir hittast og ný vinabönd verða til.
Líkt og undanfarin ár var opnunarhátíðin haldin í Silfurbergi og þá var fordrykkur borinn fram í anddyri salarins, Eyri. Í kvöld munu síðan stíga á svið landsþekktir listamenn og skemmtikraftar til að trylla lýðinn.
Hinsegin dagar í Reykjavík eru í ár haldnir hátíðlegir í sautjánda sinn en þemað í ár er heilsa og heilbrigði. Fjölbreytnin er í fyrirrúmi en nærri þrjátíu viðburðir standa gestum til boða fram til sunnudagsins 9. ágúst. Í boði verða meðal annars tónlistarviðburðir, ljósmyndasýningar, sirkusveisla, dansleikir og fræðsluviðburðir svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Sem fyrr nær hátíðin hámarki með gleðigöngu Hinsegin daga og Regnbogahátíð við Arnarhól laugardaginn 8. ágúst þar sem líkt og fyrri ár má búast við tugþúsundum gesta.