Menntamálaráðherra mun hefja vinnu til að stemma stigu við ójöfnum kynjahlutföllum í kvikmyndagerð strax á þessu ári. Þetta sagði hann á umræðufundi um málefnið sem kvikmyndahátíðin RIFF efndi til í Tjarnarbíói í kvöld. Sagt var frá þessu í tíufréttum Rúv.
Málefni þess kynhalla sem fyrirfinnst í íslenskri kvikmyndagerð hafa verið í umræðunni síðustu ár. WIFT, Konur í kvikmyndum og sjónvarpi, hafa verið ötular að halda málinu í umræðunni og ýtt á eftir að kannanir séu framkvæmdar og þrýst á stjórnvöld að leiðrétta hallann.
Í viðtali við Fréttablaðið tók leikstjórinn Baltasar Kormákur upp umræðuna og sagði að hann teldi ráðlagt að setja kynjakvóta á úthlutanir úr kvikmyndasjóði til að hleypa konum inn í kvikmyndagerð. Hann sagði bestu leiðina til þess vera þá að auka framlög til kvikmyndasjóðs á hverju ári í fimm ár. Þannig yrði búin til kvennasjóður.
Í kjölfarið var haft eftir Illuga Gunnarssyni, menntamálaráðherra sem fer með málefni kvikmyndasjóðs, að hann teldi hugmyndir Baltasars framkvæmanlegar.
Á fundinum lofaði Illugi því að bregðast við þeirri stöðu að alltof fáar konur séu í kvikmyndagerð. Þá sé metnaður til þess að auka fjárframlög til kvikmyndagerðar í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Frétt mbl.is: Á að setja kynjakvóta á úthlutanir Kvikmyndasjóðs