Fyrsta eiginkona Burt Reynolds, leikkonan Judy Carne, er látin 76 ára að aldri. Carne lést á fimmtudaginn í Englandi þar sem hún er fædd og uppalin.
Carne hóf leiklistarferil sinn árið 1961 þegar hún lék í þáttunum Danger Man. Eftir það fluttist hún til Bandaríkjanna og landaði nokkrum kvikmynda- og sjónvarpshlutverkum þar. Carne er einna þekktust fyrir hlutverk sitt í gamanþáttunum Rowan & Martin's Laugh-In.
Carne var gift Burt Reynolds í tvö ár. Hún skrifaði um hjónabandið í sjálfsævisögu sinni sem kom út árið 1985. Í bókinni fjallar hún meðal annars um eiturlyfjafíkn sína og hjónabandsörðugleikana.