Það vakti heimsathygli í síðustu viku þegar fyrrum körfuboltakappinn Lamar Odom fannst meðvitundarlaus á vændishúsi í Nevada ríki Bandaríkjanna. Odom var vart hugað líf fyrstu dagana vegna ofskammts eiturlyfja og var hann í dái í fjóra sólarhringa. Nú virðist sem Odom sé á batavegi, ekki aðeins líkamlega, heldur hafa hann og eiginkona hans, Khloé Kardashian, dregið til baka umsókn þeirra um skilnað og féllst dómstóll í Kaliforníu á þá ósk.
Áður en Odom og Kardashian gengu í hjónaband árið 2009 var Odom þekktastur fyrir glæstan körfuboltaferil sinn. Þegar hann og Kardashian kynntust spilaði hann fyrir Los Angeles Lakers og var hann nýkrýndur NBA meistari.
Líf Odom hefur þó ekki verið neinn dans á rósum. Hann fæddist í nóvember 1979 í South Jamaica hverfi Queens í New York borg. Faðir hans var heróín fíkill og lést móðir hans úr ristilkrabbameini þegar hann var aðeins tólf ára gamall. Amma Odom, Mildred Mercer, ól hann upp í South Jamaica sem þótti þá frekar hættulegt hverfi.
Árið 2003 lést Mercer og aðeins þremur árum síðar lést 6 mánaða gamall sonur hans, Jayden, úr vöggudauða. Dauði Jayden hefur markað líf Odom og hefur hann lýst því í viðtölum hvernig hann neitaði að láta lík drengsins frá sér á sjúkrahúsinu. Þremur árum síðar varð Odom NBA meistari með Los Angeles Lakers og varð hann það síðan aftur ári seinna. Þrátt fyrir glæstan feril á vellinum var Odom ekki búinn að jafna sig á fráfalli sonar síns.
„Stundum þarf ég að stoppa og minna mig á hversu mikið þessi maður hefur gengið í gegnum og hvað hann hefur misst mikið,“ sagði þáverandi liðsfélagi Odom, Derek Fisher, í samtali við Sports Illustrated árið 2009. „Ég er viss um að það er reiði og vonbrigði í honum, en að vera með þennan anda og líta svona á lífið, ég veit ekki hvernig hann gerir það.“
Í samtali við Los Angeles Times í ágúst 2011 var dauðinn Odom efst í huga en þá var hann nýkominn úr jarðarför frænda síns í New York sem Odom taldi að hafa verið myrtur. Aðeins degi eftir jarðarförina var Odom farþegi í jeppabifreið sem lenti í árekstri við bifhjól í Queens. Bifhjólið tókst á loft og hæfði fimmtán ára dreng, Awsaf Alvi Islam sem lést af sárum sínum næsta dag.
„Það er eins og dauðinn sé alltaf í kringum mig,“ sagði Odom lágri röddu í símasamtali við blaðamann Los Angeles Times. „Ég hef verið að jarða fólk í langan tíma. Þegar ég þurfti að jarða barnið mitt byrjaði ég ekki að syrgja fyrr en einu og hálfu ári síðar.“
Eftir að móðir hans lést fann Odom athvarf í körfuboltanum. Fljótlega var hann farinn að sýna sig og sanna gegn eldri andstæðingum á hinum ýmsu körfuboltavöllum í Queens. Þegar hann var 15 ára hækkaði hann um 15 sentímetra á einu ári og var orðinn 203 sentímetrar að hæð, grannur en sterkur.
Útsendarar ýmissa háskóla fylgdust grannt með Odom á síðustu árum menntaskólans og allt í einu vissu allir hver Lamar Odom var. Námið var honum þó erfitt og hlaut hann lélegar einkunnir og þurfti að skipta um menntaskóla tvisvar síðasta árið. Honum bauðst háskólastyrkur frá University of Nevada en þurfti að taka aukatíma yfir sumarið í staðinn.
Þá var Odom orðinn 208 sentímetra hár og einn af eftirsóttustu körfuknattleiksmönnum í hans aldursflokki. Þrátt fyrir það náði hann aldrei að spila fyrir skólann í Nevada þar sem grunur lék á að hann hafi svindlað í stöðuprófum og síðar var hann handtekinn fyrir viðskipti sín við vændiskonu. Eftir að hann neitaði að aðstoða við rannsókn á einkunnum hans úr stöðuprófinu þurfti skólinn í Nevada að draga tilboð sitt til baka.
Þaðan komst hann í háskólann í Rhode Island þar sem hann fékk að spila og aðeins þremur mánuðum seinna var hann valinn í lið Los Angeles Clippers, aðeins nítján ára gamall. Odom valdi sér treyju númer 7, en það var lukkutala ömmu hans.
Odom var á samning hjá Los Angeles Clippers í fjögur ár. 2003 til 2004 spilaði Odom fyrir Miami Heat en fór þaðan til Los Angeles Lakers og spilaði hann þar í sjö tímabil eða til ársins 2011. Þá var hann seldur til Dallas Mavericks í Texas og tók þá ferill hans að stefna niður á við. Odom var aðeins í nokkra mánuði í Texas áður en hann var seldur aftur til Los Angeles, þá til Los Angeles Clippers. Odom spilaði síðan árið 2014 stuttlega fyrir lið á Spáni.
Odom var einnig í landsliði Bandaríkjanna í körfubolta og hlaut m.a. bronsverðlaun á Ólympíuleikunum 2004 og gull á heimsmeistaramótinu 2010.
Stærstan hluta NBA ferilsins var Odom í sambandi við Liza Morales en þau kynntust í menntaskóla. Þau voru saman í áratug og eignuðust þrjú börn, Lamar J. Destiny og Jayden. Að sögn Morales hafði Odom talað um að kvænast henni eftir að ferlinum í NBA lyki þar sem að hans mati ættu hjónbönd körfuboltakappa erfitt uppdráttar. Odom og Morales gengu aldrei í hjónaband og hættu saman 2009 eftir að framhjáhald Odom kom í ljós.
Það var síðan í ágúst 2009 sem Odom kynntist Khloé Kardashian og gengu þau í hjónband aðeins mánuði síðar. Brúðkaupið var tekið upp og sýnt í raunveruleikaþættinum Keeping Up With the Kardashians.
„Ég held ég muni aldrei gleyma hnútinum í maganum morguninn sem ég fékk skilaboðin með þessum orðum. „Ég ætla að gifta mig“ frá manninum sem ég hafði verið með í rúman áratug,“ sagði Morales í samtali við The Daily Beast.
Næstu mánuði mátti sjá hjónaband Kardashian og Odom blómstra á skjánum og virtist parið mjög ástfangið. Odom átti þó erfitt með lífið í sviðsljósinu og fyrir framan myndavélarnar og þá sérstaklega þegar að hjónin gerðu samning við sjónvarpsstöðina E! um framleiðslu þáttarins Khloé and Lamar þar sem þau tvö voru í aðalhlutverki. Sá þáttur gekk í tvö ár, 2011 og 2012.
En aðeins ári eftir að þátturinn lagði upp laupana sótti Kardashian um skilnað og sakaði Odom um að hafa verið henni ótrúr. Sjá má Kardashian greina frá framhjáhaldi Odom í Keeping Up With The Kardashian árið 2014.
Eftir skilnaðinn var Odom handtekinn fyrir ölvunarakstur og í þáttum Keeping Up With The Kardashians mátti sjá þær systur ræða mögulega eiturlyfjafíkn hans.
Á sama tíma virtist Kardashian njóta lífsins án Odom og var hún m.a. í sambandi við rapparann French Montana. Í ágúst á þessu ári sat Odom fyrir Kardashian fyrir utan líkamsræktarstöð og reyndi hún að hunsa fyrrum eiginmanninn. Hann tók þá í hendi Kardashian og öskraði hún á hann um að láta sig í friði. Lífverðir Kardashian þurftu að skerast í leikinn og fylgdu Odom í burtu. Þetta gerðist aðeins nokkrum dögum eftir að sögusagnir þess efnis að Kardashian væri byrjuð að hitta körfuboltakappann James Harden.
Kardashian og Odom hafa þó alltaf haldið sambandi og hafa sagt samband þeirra á milli gott. Í samtali við tímaritið Complex kallaði Kardashian Odom „einn af bestu mönnum sem ég hef kynnst“ og sagðist tala við hann eins og oft og hún getur. Í viðtalinu sagðist hún jafnframt sakna hjónabandsins.
Í samtali við In Touch í ágúst sagði Odom að Kardashian væri sálufélagi hans. „Ég get ekki stjórnað því,“ sagði hann meðal annars. „Ég get ekki ímyndað mér að vera í alvarlegu sambandi með annarri konu.“
En nú virðist sem Kardashian og Odom ætli að gefa hjónabandinu annað tækifæri. Í gær staðfesti lögfræðingur Kardashian fjölskyldunnar að umsókn Kardashian og Odom hafi verið dregin til baka. Aðeins eru nokkrir mánuðir síðan að þau skrifuðu undir skilnaðarpappírana. Þeir höfðu þó ekki enn fengið meðferð fyrir rétti.
En margir velta því eflaust fyrir sér hvað það var sem fékk þau til þess að endurskoða skilnaðinn. Hann misnotaði eiturlyf og áfengi og fannst rænulaus á vændishúsi fyrir aðeins rúmri viku. Þar að auki komu að minnsta kosti tvær konur fram í fjölmiðlum árið 2013 og lýstu kynlífi sínu með körfuknattleiksmanninum á meðan hann var enn giftur Kardashian.
Að sögn slúðurmiðla vestanhafs er ástæðan sú að Odom hafi nú heitið Kardashian að láta eiturlyfin í friði. Hann hafi hlotið annað tækifæri í lífinu og nú myndi hann kveðja dópið fyrir fullt og allt. Hvort að Odom muni nýta þetta nýja tækifæri til fulls þarf tíminn að leiða í ljós.