Beverly Hills á Íslandi

Stefán Hallur Stefánsson, Vigdís Másdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Sveinn Ólafur …
Stefán Hallur Stefánsson, Vigdís Másdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Svandís Dóra Einarsdóttir fara með hlutverk í sýningunni. Ljósmynd/Gassi Ólafsson

„Verkið fjallar um þrjár vinkonur, sonur einnar þeirra er lagður í einelti í skólanum og hann segir að sá sem leggi hann í einelti sé strákurinn sem býr í einu félagslegu íbúðinni í Garðabæ, á Nónhæðinni. Mamma hans skellir alltaf á, vill ekki tala um þetta og segir að þetta sé ekki sonur hennar. Vinkonurnar þrjár ákveða að heimsækja hana til að útkljá málið og það fer ekki alveg á þann veg sem þær ætluðu sér. Fyrstu 30 mínútur verksins fjalla um það og restin af verkinu er uppgjör, úrvinnsla á því sem gerðist,“ segir Heiðar Sumarliðason um (90)210 Garðabær, nýtt leikrit sitt sem hann leikstýrir einnig og frumsýnt verður í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í kvöld.

(90)210 Garðabær er annað verk Heiðars sem sett er á svið í stóru leikhúsunum, það fyrra Rautt brennur fyrir sem var sýnt í Borgarleikhúsinu árið 2009. Heiðar hefur leikstýrt fjölda verka í leikhúsi, síðast Segðu mér satt eftir Hávar Sigurjónsson í Kúlunni fyrir tveimur árum. Leikfélagið Geirfugl sýnir verkið í samstarfi við Þjóðleikhúsið og er sýningin styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Verk um konur

„Þetta er svört kómedía sem umbreytist í einhvers konar úthverfahrylling,“ segir Heiðar um verkið. Það fjalli um óttann við lágstéttina, „ótta við fólk sem er á féló, það hlýtur að vera klikkað“, eins og Heiðar lýsir því.

– Var einhver sérstakur atburður kveikja að þessari sögu?

„Nei, ekki beint. Mig langaði til að skrifa verk um konur, verk þar sem konur væru gerendur en ekki einhverjar puntdúkkur eins og þær eru alltof oft í verkum eftir karlmenn. Þær eru aðalpersónurnar, karlmennirnir fá sitt pláss en eru meira til stuðnings. Mig langaði líka að skrifa verk um einelti en mig langaði ekki að skrifa um börn. Ég fór að velta fyrir mér hverjir væru foreldrar þessara krakka sem eru gerendur í eineltismálum, foreldrar verstu gerendanna. Hvernig talar það fólk? Hvernig tala þau á sínu heimili? Hvað er það sem fær börnin þeirra til að fara út í heiminn og níðast á öðrum?“ segir Heiðar.

Var lagður í einelti

– En hvers vegna vildir þú fjalla um einelti?

„Ef þú ætlar að skrifa verk og halda það út í þrjú ár – eins og ég gerði með þetta verk – þá verður alltaf að byrja á kvöl höfundar, spyrja sig að því hver hún sé. Hún verður að vera nógu mikil til að brenna á þér svo þú klárir verkið.

Ég lenti í því í áttunda og níunda bekk að vera hreinlega ofsóttur af manni sem var með mér í skóla. Hann lét af því þegar komið var í tíunda bekk en þetta er eitthvað sem situr í manni og ég var alveg til í að eyða þremur árum í að skrifa verk um þetta. Mér finnst að enginn ætti að þurfa að lenda í því að vera flóttamaður í eigin skóla,“ segir Heiðar.

Ekki tilvísun í sjónvarpsþætti

Titill verksins minnir óneitanlega á heiti bandarísku sjónvarpsþáttanna Beverly Hills 90210 sem sýndir voru á árunum 1990 til 2000 og spurður að því hvort hann sé að vísa í þættina segir Heiðar að ekki sé það alveg svo. „Þetta er tilvísun í póstfangið í hverfinu, það er sama póstfang í Beverly Hills og Garðabæ, fyrir utan þetta 90. Mér fannst þetta sniðug tenging því ef finna á eitthvert Beverly Hills á Íslandi þá hlýtur það að vera Garðabær,“ segir Heiðar kíminn.

Umfjöllunarefni verksins minnir nokkuð á leikritið Vígaguðinn eftir Yasminu Reza. Í því lenda tveir ellefu ára strákar í slagsmálum og slær annar hinn með priki með þeim afleiðingum að hann missir tvær framtennur. Foreldrar þeirra hittast til að ræða málin og eru samræður vingjarnlegar í fyrstu en svo hitnar í kolunum og ásakanir taka að fljúga á víxl. Blaðamaður nefnir þetta við Heiðar og segist hann þekkja verkið og hafa verið meðvitaður um það við skrif (90)210 Garðabær. Hann fari þó í allt aðra átt en Reza og nefnir sem dæmi að móðir gerandans í hans verki sjáist aldrei.

Umræður að loknum tveimur sýningum

(90)210 Garðabær verður frumsýnt í kvöld kl. 19.30 og aðrar sýningar eru 31. okt., 6., 7., 12., 13. og 22. nóvember. Boðið verður upp á umræður með þátttöku leikara og listrænna aðstandenda eftir sýningarnar 6. og 13. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólki þykir mikið til vinnusemi þinnar koma. Spennan gæti magnast milli þín og makans því hvorugt er tilbúið til þess að miðla málum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólki þykir mikið til vinnusemi þinnar koma. Spennan gæti magnast milli þín og makans því hvorugt er tilbúið til þess að miðla málum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård