Bond, James Bond

Alls hafa sex leikarar farið með hlutverk James Bond síðan Dr. No var frumsýnd árið 1962. Sitt sýnist hverjum um það hver túlkar best njósnarann með dulnefnið 007 og margir hafa einfaldlega mest dálæti á þeim leikara sem lék Bond í þeirri mynd sem viðkomandi sá fyrst.

Hvað sem því líður þá setti hver og einn þeirra sinn svip á rulluna auk þess sem tíðarandinn setur jafnan sitt mark á James Bond á hverjum tíma.

Daniel Craig

Fullt nafn: Daniel Wroughton Craig Þjóðerni: England Fæddur: 2. mars 1968 Myndir:?

Daniel Craig.
Daniel Craig.
Þó sífellt fleiri telji Daniel Craig besta Bondinn frá upphafi þá væri synd að segja að aðdáendur 007 hafi tekið honum fagnandi þegar ráðning hans var kynnt síðla árs 2005. Gekk vanþóknun margra svo langt að stofnaðir voru þrýstihópar sem voru virkir á alnetinu við að reyna að telja framleiðendum myndanna hughvarf og þegar það gekk ekki hótuðu sömu hópar að sniðganga hverja þá Bondmynd sem skartaði Craig í aðalhlutverki. Þessar raddir snarþögnuðu þegar Casino Royale var frumsýnd 2006 og hafa þær gengið með veggjum síðan því Craig sýndi það og sannaði þegar í frumraun sinni að hann átti fullt erindi í hlutverkið, hlaut tilnefningu til BAFTA-verðlaunanna sem Besti leikari ársins og myndin sló öll fyrri aðsóknarmet Bondmynda. Nokkuð hefur verið ritað og rætt um það hvort Craig komi til með að gera fleiri myndir að SPECTRE genginni, ekki síst vegna mistúlkaðra orða hans í viðtali við London Time Out, en hann er samningsbundinn til að gera minnst eina til svo aðdáendur hans og Bond geta andað rólega í bili. Þess má að endingu geta að Daniel Craig er eldheitur stuðningsmaður enska fótboltaliðsins Liverpool og fer á leiki þegar færi gefst.

Roger Moore

Fullt nafn: Roger George Moore Þjóðerni: England 14. október 1927 7 myndir

Roger Moore.
Roger Moore.
Roger Moore tók við hlutverki James Bond árið 1973 og er enn þann dag í dag sá leikari sem oftast hefur leikið kappann. Heldur kvað við nýjan tón þegar Moore mætti til leiks, stemningin varð gamansamari og galsafengnari og Bond allur léttari í lund. Við það fjarlægðist söguhetjan bækur Ian Flemings en sumpart var það svar við kalli tíðarandans. Þar af leiðandi eldast myndir Moore misvel þó meðal þeirra séu tvær sem eru í hópi þeirra bestu frá upphafi, The Spy Who Loved Me og For Your Eyes Only. Moore er einnig sá elsti til að taka að sér hlutverkið enda var hann 45 ára þegar hann lék í Live And Let Die og orðinn 58 ára þegar hann lét gott heita í kjölfar A View To A Kill. Til samanburðar má nefna að George Lazenby var aðeins þrítugur þegar hann lék í sinni fyrstu og einu mynd, og Daniel Craig var 38 ára er hann lék í Casino Royale.

Moore átti ágætis feril sem leikari þó ekki sé ýkja margt markvert þar að finna utan Bonds. Þá er hann margheiðraður gegnum tíðina fyrir margs konar störf í þágu góðgerðar- og líknarmála.

Pierce Brosnan

Fullt nafn: Pierce Brendan Brosnan Þjóðerni: Írland. Fæddur: 16. maí 1953

Pierce Brosnan
Pierce Brosnan
Eftir sex löng ár – enn lengsta bilið milli frumsýningar tveggja Bondmynda – var loks komið að því að Pierce Brosnan fengi að munda Walther PPK byssuna og bjarga deginum. Brosnan hafði sjálfur þurft að bíða enn lengur eða hartnær áratug því upphaflega stóð til að hann tæki við af Roger Moore. Árið 1986 var hann hins vegar samningsbundinn við gerð sjónvarpsþáttanna Remington Steele og gat því ekki tekið hlutverkið að sér. Hann var því skiljanlega hinn hressasti þegar loks kom að því að takast á við draumahlutverkið og frumraun hans sem Bond, GoldenEye frá 1995, ber þess merki. Myndir Brosnan urðu alls fjórar og eru áþreifanlega léttari í lund en myndirnar tvær sem Timothy Dalton lék í, hvort sem áhorfendur kunna að telja það til kosta eður ei. Almennt gera þær vel í því að finna 007 nýjar ógnir og óvini þegar Kalda stríðið var að baki, þó heldur hafi sigið á ógæfuhliðina þegar á leið.

Brosnan hefur átt nokkurri velgengni að fagna á hvíta tjaldinu fyrir utan Bond og meðal betri mynda hans eru Mrs. Doubtfire (1993), The Tailor of Panama (2001) og The Matador (2005).

George Lazenby

Fullt nafn: George Robert Lazenby Þjóðerni: Ástralía Fæddur: 5. september 1939 1 mynd

George Lazenby.
George Lazenby.
Það þóttu mikil tíðindi þegar alls óþekkt karlmódel var fengið til að leika 007 þegar Connery var orðinn saddur Bond-daga. Lazenby hlaut öðru fremur hlutverkið út á hálfgert óhapp þegar hann kýldi áhættuleikara óvart þegar þeir ætluðu að leika slagsmál við áheyrnarprófin fyrir hlutverkið. Framleiðendum leist vel á kappann og réðu hann.

Lazenby hlaut vægast sagt misjafnar undirtektir er OHMSS var frumsýnd enda forverinn búinn að gera hlutverkið að sínu. Í seinni tíð hafa sannir Bond-fíklar tekið kappann í sátt og myndin þykir almennt með þeim allra bestu.

Þvert á almannatrú var það ekki svo að EON Productions ákvæði að gera ekki fleiri myndir með Lazenby; Broccoli og Saltzman buðu honum hvorki meira né minna en 7 mynda samning. Lazenby var sjálfur sokkinn á kaf í hippamenninguna (mætti meira að segja síðhærður og fúlskeggjaður á frumsýninguna) og taldi enga framtíð í Bond; njósnarinn væri fantur en mál málanna (árið 1969) væri friður, svo hann afþakkaði pent að leika njósnarann oftar.

Ferill Lazenby galt fyrir hroka hans og náði aldrei neinu teljandi flugi í kjölfarið. Eftir margra ára blankheit og verkefnaskort auglýsti hann meðal annars eftir vinnu í tímaritinu Variety árið 1978. Seinna sneri hann sér að fasteignaviðskiptum og vegnaði reyndar býsna vel á þeim vettvangi. En stjarna varð hann ei.

Timothy Dalton

Fullt nafn: Timothy Peter Dalton Þjóðerni: Wales Fæddur: 21. mars 1944 2 myndir

Timothy Dalton.
Timothy Dalton.
Rétt eins og hinn kankvísi og gamansami Moore var brotthvarf frá eldri myndum, var tilkoma Timothy Dalton kúvending frá því sem áður var. Í stað kvennabósa sem glotti út í annað og sængaði viðstöðulaust hjá hvaða konu sem fyrir varð, var nú James Bond orðinn alvarlegur í háttum, var um sig og stökk sárasjaldan bros. Þá ber að nefna að alnæmi var ekki minni alheimsógn en kommúnisminn um það leyti sem Dalton var og hét sem Bond og hann skipti sér því vart af fleirum en einni konu í hvorri mynd. Það var meira en margur gat kyngt en hitt er annað mál að margir segja Dalton líkastan því sem skapari Bond sá fyrir sér. Auk þess mætti hann til leiks sem klassískt menntaður leikari sem átti glæstan leikhúsferil að baki með mikla reynslu af Shakespeare. Honum hugnaðist ekki glaumgosanálgunin hvað Bond varðaði og einsetti sér að færa hann nær raunveruveruleikanum. Í meðförum Daltons er James Bond útsendari sem nýtur ekki endilega starfsins og líður oft allt annað en vel á vettvangi. Umskiptin voru sem fyrr segir ekki allra.

Sean Connery

Fullt nafn: Thomas Sean Connery Þjóðerni: Skotland Fæddur 25. ágúst 1930 6 myndir*

Sean Connery.
Sean Connery.
Connery er hinn upprunalegi Bond og í margra hugum hinn eini og sanni. Hann var alls óþekktur þegar hann sló í gegn á einni nóttu sem 007 og varð samstundis ein skærasta stjarna kvikmyndaheimsins. Sagan segir að höfundurinn Ian Fleming hafi hreint ekki verið sáttur við valið á leikaranum og þótt Connery skorta þá fágun sem Bond þyrfti að hafa til að bera; bæði væri hann of hávaxinn og Skoti í ofanálag. Það mun hins vegar hafa breyst þegar Fleming sá frammistöðu leikarans í Dr. No. Svo hrifinn var hann reyndar að hann bjó svo um hnútana í seinni bókunum að Bond er hálfur Skoti og hálfu Svisslendingur.

James Bond í meðförum Sean Connery er um margt barn síns tíma og pólitísk rétthugsun þvældist lítið fyrir handritshöfundum þess tíma. Hann slær ósjaldan á rass kvenna í kveðjuskyni og á til talsverðan hrottaskap. Afgreiðsla hans á Prófessor Dent í Dr. No þykir enn þann dag í dag býsna kaldrifjuð.

Connery hefur átt farsælan feril í kvikmyndum allar götur frá því hann kvaddi Bond og hlaut hann meðal annars Óskarsverðlaun sem besti leikari í aukahlutverki árið 1988 fyrir hlutverk sitt í stórmyndinni The Untouchables eftir Brian De Palma.

Meðal annarra þekktra mynda með kappanum má nefna The Longest Day (1962), Marnie (1964), Highlander (1986), Indiana Jones and the Last Crusade (1989) og

The Hunt For Red October (1990).

*Connery lék Bond á ný í Never Say Never Again árið 1983 en sú mynd er ekki framleidd af Eon Productions og telst því ekki fyllilega með.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir