Miðlar vestanhafs keppast nú við að segja frá því að leikarinn Charlie Sheen muni ljóstra því upp í viðtali í þættinum Today á morgun að hann hafi verið greindur með HIV. Sheen var hæst launaði sjónvarpsleikari Bandaríkjanna þegar hann lék í Two and a Half Men en var látinn fara eftir að hann fór að sýna stórundarlega hegðun.
Bæði tímaritið People og slúðurmiðillinn TMZ hafa sagt frá því að Sheen muni segja frá greiningunni í viðtali við Matt Lauer á morgun, en samkvæmt Business Insider mun hann ljóstra upp um persónulegt mál í þættinum.
Slúðurblaðið National Enquirer hefur sagt frá því á forsíðu blaðsins að Sheen hafi greinst með HIV og þá birti Radar Online svokallað „blind item“ fyrir tveimur vikum þar sem stóð að ónafngreindur óþekktarormur hefði greinst með veiruna.
People hefur eftir almannatenglinum og krísuráðgjafanum Howard Bragman að Sheen gæti átt yfir höfði sér lögsóknir þar sem hann hefði ekki upplýst bólfélaga sína um að hann hefði verið greindur.
Það var Huffington Post sem sagði frá.
Á heimasíðu landlæknis má finna upplýsingar um HIV.