Leikkonan Carrie Fisher endurtók hlutverk sitt sem Leia prinsessa í nýjustu Star Wars myndinni, The Force Awakens sem kemur út á næstunni.
Leikkonan skaut föstum skotum að framleiðendum myndarinnar á dögunum, þegar hún greindi frá því að hún hefði verið beðin um að létta sig talsvert fyrir hlutverkið.
„Þeir vilja ekki ráða mig alla, bara svona þrjá fjórðu af mér. Ekkert breytist, þessi bransi er drifinn áfram af útlitsdýrkun. Ég tilheyri bransa þar sem það eina sem skiptir máli er þyngd og útlit. Þetta er svo ruglað, þeir gætu allt eins sagt mér að yngjast“ sagði leikkonan í samtali við tímaritið Good Housekeeping.
Til þess að undirbúa sig fyrir hlutverkið gerði Fisher það sama og aðrir leikarar í hennar sporum.
„Ég gerði það sem allir í minni stöðu gera. Hætti að borða og æfði meira. Það er engin önnur leið til að gera þetta.“
Fisher segir að vandamálið sé ekki einungis bundið við Hollywood, heldur sé það samofið samfélaginu.
„Við lítum á fegurð sem afrek og það er klikkað. Allir í L.A. segja, þú lítur vel út. Enginn segir, hvernig hefur þú það, eða þú lítur út fyrir að vera hamingjusöm.“