Samkvæmt heimildum mbl.is barst morðhótun í morgun gegn Almari Atlasyni, nemenda Listaháskóla Íslands, inn á aðalskrifstofu skólans. Eins og kunnugt er hefur Almar nú dvalið nakinn í glerkassa í húsnæði skólans frá því á mánudag og er hann í beinni útsendingu allan sólarhringinn í gegnum YouTube.
Heimildarmaður mbl.is sagði að einnig hafi komið hópur að skólanum í nótt og reynt að brjótast inn, að því er talið er til að ná til Almars þó ásetningur hópsins liggi ekki fyrir.
Ólafur Sveinn Gíslason, deildarstjóri Myndlistadeildar LHÍ, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Segir hann málið hafa verið kært til lögreglu og að nemendur hafi komið upp verndarneti vegna þess. Segir hann að húsnæðið verði vaktað allan sólarhringinn þar til verkefninu lýkur.