Það er óhætt að segja að væntingarnar hafi verið í hámarki í morgun þegar Almar Atlason steig út úr kassanum sem hann lokaði sig inni í fyrir viku. Allir helstu fjölmiðlar landsins voru á staðnum og hægt var að fylgjast með í beinni útsendingu enda hefur verið rætt um fátt annað í vikunni.
mbl.is var að sjálfsögðu á staðnum og Almari var vel fagnað þegar hann kom út, enda er þetta líklega er þetta eitt umtalaðasta listaverk Íslandssögunnar. Almar hefur afhjúpað fordóma og hræðslu margra sem skilaði sér í morðhótun, bandaríski fréttavefurinn Huffington Post hefur fjallað um uppátækið, hann hefur verið til umræðu á Alþingi, u.þ.b. þúsund manns horfðu á streymið frá kassanum á youtube hverju sinni og allar fréttir um hann hafa verið lesnar upp til agna af landsmönnum sem líklega eru því fegnir að geta rætt um eitthvað annað en veðrið í kafftímanum.
Sjálfur var hann hinn rólegasti þegar hann steig úr kassanum og við skildum við hann reykjandi sígarettu fyrir utan Listaháskólann þar sem við hittum hann fyrst fyrir viku síðan.
Í myndskeiðinu fyrir neðan má rifja það upp þegar hann steig fyrst inn í kassann sem þá var tómur og þá ræddi Almar við okkur um gjörninginn.