Svo virðist sem Stjörnustríðsæði hafi gripið um sig hjá kvikmyndahúsagestum um heim allan, þar sem nú lítur út fyrir að myndabálkurinn ætli enn á ný að setja aðsóknarmet. Sýningar á nýjustu myndinni, The Force Awakens, hófu göngur sínar vestanhafs á fimmtudag og skiluðu þá 57 milljónum Bandaríkjadala í kassa kvikmyndahúsa.
Eftir gengdarlausa aðsókn í gærdag býst framleiðandi myndanna, Disney, við því að gróðinn af myndinni í Bandaríkjunum fari fram úr 215 milljónum dala yfir helgina. Myndi hún um leið slá aðsóknarmet myndarinnar Jurassic World, sem frumsýnd var í júní og skilaði þá tæpum 209 milljónum dala.
Fari svo mun það koma fáum sérfræðingum á óvart, samkvæmt umfjöllun New York Times, en samt sem áður eru tölurnar í sjálfu sér ótrúlegar.