Nýjasta Stjörnustríðsmyndin; Star Wars: The Force Awakens, sló met vestanhafs um helgina og er sú mynd sem rakað hefur inn mestu fé á frumsýningarhelgi í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum og Kanada.
Tekjur myndarinnar vestanhafs námu 238 milljónum Bandaríkjadala, en fyrra met átti Jurassic World sem halaði inn 208,8 milljónum dala þegar hún var frumsýnd fyrr á árinu.
Stjörnustríðið náði þó ekki að slá met risaeðlanna á heimsvísu, en heildartekjur Star Wars: The Force Awakens um helgina námu 517 milljónum dala. Þegar Jurassic World var frumsýnd námu heildartekjurnar 524,9 milljónum dala.