Nýja Stjörnustríðsmyndin, Star Wars: The Force Awakens, er vinsæl meðal bíógesta um allan heim og nema tekjur af miðasölu 529 milljónum Bandaríkjadala, 69 milljörðum íslenskra króna, á fyrstu sýningarhelgi. Aldrei áður hafa miðar á kvikmynd selst fyrir viðlíka fjárhæð en fyrra metið var aðeins nokkurra mánaða gamalt þegar Jurassic World var frumsýnd í júní en tekjur af henni námu 525 milljónum Bandaríkjadala frumsýningarhelgina.
Á Íslandi skilaði myndin um 23,5 milljónum króna í miðasölu yfir helgina og frá for- og frumsýningum í liðinni viku nema miðasölutekjur um 37,6 milljónum króna en hún var sýnd allan sólarhringinn fyrstu dagana.