Warwick Davis hefur gert garðinn frægan í Stjörnustríðsmyndunum, ævintýrum Harry Potter og fleiri kvikmyndum.
Hinn 45 ára leikari hóf þó feril sinn í kvikmyndinni The Return of The Jedi fyrir 32 árum, þar sem hann fór með hlutverk Ewoksins Wicket. Amma Davis hafði skömmu áður heyrt útvarpsauglýsingu, þar sem auglýst var eftir lágvöxnu fólki og hvatti Davis til að sækja um.
„Hún var í eldhúsinu að hlusta á útvarpið þegar hún heyrði auglýsingu frá Lucasfilm, en þeir voru að leita að lágvöxnu fólki til að leika í Star Wars“ sagði leikarinn í samtali við dagblaðið Mirror.
„Á þessu augnabliki hófst ferill minn og ég á henni það að þakka. Ef hún bara gæti séð hvar ég er í dag.“
Konurnar í fjölskyldu Davis eru greinilega duglegar að koma honum á framfæri. Dóttir hans, Annabelle, sá til þess að hann fengi hlutverk í nýjustu myndinni, The Force Awakens þar sem hann leikur Wollivan.
„Hún fékk hlutverk á undan mér, og ég spurði – bíddu nú við, hvernig gerðist þetta? Ég er sá sem hóf þetta allt, og þú komst inn á undan mér.“
Davis sá sér þó fljótlega leik á borði og nýtti hlutverk dótturinnar sér í vil.
„Ég skutlaði henni í upptökuverið og gerði öllum það ljóst að ég var á svæðinu. Fólk sá mig svo og bað mig að doka við því það gæti notað mig. Það virkaði – og allt vegna þess að ég var bílstjóri dóttur minnar.“