Útlit leikkonunnar Carrie Fisher hefur verið á milli tannanna á fólki eftir að hún endurtók hlutverk sitt sem Leia prinsessa í The Force Awakens.
Leikkonan tók á það ráð að svara nettröllum fullum hálsi á Twitter-síðu sinni, þar sem hún greindi frá því að hún tæki gagnrýni um holdafar og útlit hennar nærri sér.
„Vinsamlegast hættið að rökræða hvort ég hafi elst vel eða illa. Því miður særir það allar mínar tilfinningar. Líkaminn minn hefur ekki elst eins vel og ég.“
„Líkami minn er farartæki fyrir heilann minn, hann dröslar mér á staði þar sem ég hef eitthvað að sjá og segja“ sagði leikkonan í færslu sem hún birti á Twitter.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Fisher tjáir sig um útlitsdýrkun í kvikmyndabransanum, en fyrir skemmstu skaut hún föstum skotum að framleiðendum myndarinnar sem fóru fram á að hún þyrfti að létta sig talsvert áður en tökur hæfust.
„Þeir vilja ekki ráða mig alla, bara svona þrjá fjórðu af mér. Ekkert breytist, þessi bransi er drifinn áfram af útlitsdýrkun. Þetta er svo ruglað, þeir gætu allt eins sagt mér að yngjast.“
„Við lítum á fegurð sem afrek og það er klikkað. Allir í L.A. segja þú lítur vel út, enginn segir hvernig hefur þú það?“
Please stop debating about whetherOR not👁aged well.unfortunately it hurts all3 of my feelings.My BODY hasnt aged as well as I have.Blow us👌🏼
— Carrie Fisher (@carrieffisher) December 29, 2015
My body is my brain bag, it hauls me around to those places & in front of faces where theres something to say or see pic.twitter.com/T2TXiEyl17
— Carrie Fisher (@carrieffisher) December 29, 2015