Töframaðurinn sem hvarf

David Bowie á sviði í Frankfurt árið 1983.
David Bowie á sviði í Frankfurt árið 1983. AFP

„Það var hrottalega hversdagsleg leið fyrir svona handanheimskennda persónu til að hverfa af sjóndeildarhring almennings,“ skrifaði Andrew Harrison hjá Guardian um hjartaáfall sem olli því að stórstjarnan David Bowie þurfti að segja skilið við sviðsljósið árið 2004.

Grein Harrison fjallar um útgáfu nýjustu plötu Bowie, Blackstar, sem kom út á 69 ára afmælisdegi hans þann 8. janúar síðastliðinn. Það sem Harrison gat ekki vitað, það sem enginn utan nánasta hrings tónlistarmannsins vissi, var að Bowie hafði barist við krabbamein síðustu 18 mánuðina og myndi lúta í lægra haldi fyrir því aðeins tveimur sólarhringum eftir útgáfuna. Þótt ofangreind orð og þau sem fylgdu væru skrifuð um hvarf Bowie úr bransanum eiga þau ekki síður við í dag þegar hann hefur yfirgefið svið hinna lifandi.

„Það sem var svo skelfilegt var ekki að þessi ástsæla persóna – tótem fyrir kynslóðir félagslegra, kynferðislegra og dulrænna utangarðsmanna- gæti orðið svo alvarlega veikur heldur það að Bowie gæti verið mannlegur yfirhöfuð,“ skrifaði Harrison.

Bowie var svo sannarlega mannlegur en list hans var af öðrum heimi. Það var dauði hans svo sannarlega einnig.

Plötuumslag Hunky Dory sem kom út 1971.
Plötuumslag Hunky Dory sem kom út 1971.

Byltingin stöðuga

David Jones fæddist í Brixton árið 1947, þjónustustúlkunni Peggy og næturklúbbseigandanum Haywood Jones. Hann var alinn upp í Bromley þar sem hann reyndi sem ungur maður að máta sig við allar hinar ólíku senur Bretlands sem fylgdu í kjölfar rokksins áður en hann náði loks árangri á eigin forsendum. Eins og Harrison skrifaði hefði Jones verið brennimerktur af samfélagi nútímans fyrir að reyna of mikið. Hann tók reglulega upp nýja stíla, tónlistarmenn, umboðsmenn og lét þá róa jafn harðan. Listamannsnafnið hélt sér þó alltaf en hann tók upp eftirnafnið Bowie árið 1966 til að forðast að vera ruglað saman við Davy Jones í The Monkees.

BBC segir hann hafa virst vera í stöðugri byltingu, ólíkt tónlistarmönnum fyrri tíma sem þróuðust eða stöðnuðu, fremur en að vaða úr einu í annað. Hann var hafinn yfir alla stimpla og lék sér að tónlist, tísku og kynferði eins og leikföngum.

Bowie gekk til liðs við sína fyrstu hljómsveit aðeins 15 ára og sveiflaðist milli banda allt fram til ársins 1967 þegar hann gaf út sína fyrstu sólóplötu sem hét einfaldlega David Bowie. Hún náði ekki inn á vinsældalista og Bowie hélt tónlistinni að mestu fyrir sig næstu tvö árin.

Hann hellti sér út í annarskonar sviðslistir og nam m.a. mæm (e. mime) og ítalskan gamanleik og kynntist þannig persónusköpun sem átti eftir að hafa áhrif á allan hans feril. Hann birtist í dansverkum og auglýsingum en með útgáfu Space oddity 11. júlí 1969 varð fullljóst að honum var ætlaður tónlistarferill. Platan náði nokkrum vinsældum í Evrópu en tók fjögur ár að öðlast vinsældir í Bandaríkjunum.

Plötuumslag Aladdin Sane sem kom út árið 1973.
Plötuumslag Aladdin Sane sem kom út árið 1973.

Ótal andlit Bowie

„Þegar hann náði loksins í gegn árið 1972 var það þykkhært, tággrannt, ókynjað annað sjálf: Ziggy Stardust sem endurskóp rokk og ról fyrir áratuginn. Þaðan af yrði popp baráttubroddur skrítinna og útskúfaðra, varanleg svívirðing og sérstaklega hjálparhönd til ungs fólks utan kynferðislegrar tvíhyggju,“ skrifar Harrison um þessa fyrstu velgengni Bowie í Bandaríkjunum. Í millitíðinni hafði hann þó gefið út tvær aðrar plötur, The Man who Sold the World og Hunky Dory.

Hann fór í óvenjulegt og ævintýralegt tónleikaferðalag um Bretland sem umræddur Ziggy Stardust snemma árs 1972 ásamt The Spiders from Mars og náði þar nýjum hæðum vinsælda. Fljótlega eftir að platan  The Rise and Fall of Ziggy Stardust and the Spiders from Mars birtist á vinsældalistum lét hin þá hálfsársgamla Hunky Dory sjá sig þar í fyrsta skipti. Tónleikaferðalaginu var haldið áfram til Bandaríkjanna og rauðhærði glysgaurinn Ziggy Stardust sló í gegn á heimsvísu.

Bowie bjó sér til nýjan karakter, Aladdin Zane sem gulltryggði vinsældir hans í Bandaríkjunum. Hann tók að reyna fyrir sér af alvöru sem pródúser m.a. með plötu Lou Reed Transformer og smelli Mott The Hoople „All the Young Dudes“.  Á næstu árum þeystist hann milli heimshorna og persóna, og hvort sem hann var „náföli kókaín-ringlaði sálardrengur Young Americans,“ eða „nægjusama evrópska karlmaskína þríleiks Berlínar-breiðskífna sinna,“ tókst honum samtímis að heilla áheyrendur sína og rugla þá í ríminu. Þannig komst hann t.a.m. í vandræði fyrir að segja hluti á við „Bretland hefði gott af fasískum leiðtoga“ og „Adolf Hitler var ein af fyrstu rokkstjörnunum“ en seinna meir kenndi hann bæði mikilli eiturlyfjaneyslu og persónu sinni á þeim tíma „Thin White Duke“ um hegðun sína.

Kameljón eða hvað?

Í fyrrnefndri grein sinni skrifar Harrison að það að lýsa Bowie sem kameljóni sé klisja en að klisjan missi í raun gjörsamlega marks.

„Hugmyndin um að hann búi sér til grímu einfaldlega til að markaðssetja það sem hann hefur gert er mistúlkun,“ hefur Harrison eftir Paul Trynka sem skrifaði ævisöguna Starman um Bowie.

„Í raun skapar hann grímuna til að búa til listina. Kameljón breytist til að herma eftir bakgrunni sínum. Bowie neyðir  bakgrunninn til að breytast til að líkja eftir honum. Hans stærsta afrek er ekki að markaðssetja sig með persónu heldur að skapa persónu til þess að skapa list.“

Guardian greinir frá sjaldgæfu viðtali við Bowie frá árinu 2002 þar sem hann sagði það ekki vera sér eðlislægt að koma fram. „Ég nýt þess ekki mikið að koma fram. Hef aldrei gert það. Ég get gert það og ef hugur minn er í aðstæðunum geri ég það býsna vel. En eftir fimm eða sex tónleika þrái ég að komast burt frá ferðalaginu og aftur inn í upptökuverið.“

Þessi orð Bowie kunna að hljóma furðulega þegar horft er til þess hversu kynngimagnaður og fjölbreyttur  listamaður hann var á sviði. Það má velta því upp að hliðarsjálf hans hafi þannig ekki einvörðungu verið honum hvati til listsköpunar og list út af fyrir sig heldur jafnframt hans útgáfa af alþekktri brynvörn sem ótal listamenn hafa notast við til að eiga við lífið fyrir augum heimsbyggðarinnar.

Þegar upp er staðið eru þessar persónur og það sem þær standa fyrir kannski heldur ekki eins ólíkt og það virðist.

„Allan feril minn hef ég í raun alltaf verið með sama umfjöllunarefnið. Buxurnar breytast kannski en orðin sjálf og viðfangsefnin sem ég hef alltaf kosið að skrifa um eru hlutir sem hafa að gera með einangrun, að vera yfirgefinn, ótta og kvíða, alla hápunkta lífs manns.“

Tvíkynhneigðin fyrirsögn of lengi

Plötur David Bowie urðu 25 talsins og hver veit hvað persónurnar voru margar. Auk hliðarsjálfa hans lék hann í fjölmörgum kvikmyndum og leikverkum en gaf alltaf aðdáendum sínum þá tilfinningu að hann veldi hlutverkin af kostgæfni. Áhrif hans á heim tónlistarinnar eru óumdeild enda hafa fáir aðrir átt jafn velheppnaðar innkomur á jafn margar senur auk þess sem hliðarsjálfin móta enn þann dag í dag heim tískunnar. Ástarlíf Bowie, eða öllu heldur kynhneigð hans, hafði þó einnig eftir mögnuð áhrif á umheiminn.

Bowie giftist Mary Angela Barnett árið 1970 í London. Þau eignuðust einn son, Duncan Zowie Haywood Jones, sem lengi gekk undir nafninu „Zowie Bowie“ en skildu þann 8. febrúar árið 1980 í Sviss. Í viðtali í Melody Maker árið 1972 hafði Bowie lýst sig samkynhneigðan en við sama tækifæri voru fyrstu myndirnar af honum sem Ziggy Stardust teknar. „Það er satt – ég er tvíkynhneigður,“ sagði Bowie í viðtali við Playboy í september 1976. „En ég get ekki neitað því að ég hef notað þá staðreynd mjög vel. Ég býst við að það sé það besta sem hefur komið fyrir mig.“ Árið 1983 var hinsvegar annað uppi á teningnum þegar hann sagði við Rolling Stone að yfirlýsingar um kynhneigð sína hefðu verið stærstu mistök lífs síns. „Ég hef alltaf verið gagnkynhneigður maður í skápnum.“ Árið 2002, þegar hann var spurður hvort hann teldi yfirlýsingarnar enn til mestu mistaka lífsins sagðist hann ekki telja það til mistaka í Evrópu en að það hefði verið mun erfiðara í Bandaríkjunum.

„Það skipti mig engu þótt fólk vissi að ég væri tvíkynhneigður. En ég hafði enga þörf á að halda uppi neinum merkjum eða vera fulltrúi einhvers hóps. Ég vissi hvað ég vildi vera, lagahöfundur og flytjandi  og mér fannst eins og tvíkynhneigð væri fyrirsögn mín hérna of lengi. Bandaríkin eru mjög púrítanskur staður og ég held það hafi staðið í vegi fyrir mörgu því sem ég ætlaði að gera.“

Að sögn fyrstu eiginkonu Bowie átti hann meðal annars í ástarsambandi við Mick Jagger. Árið 1992 giftist hann hinsvegar fyrirsætunni Iman og eignuðust þau dótturina Alexandria Zahra Jones í ágúst 2000.

David Bowie ásamt eiginkonu sinni Iman.
David Bowie ásamt eiginkonu sinni Iman. AFP

„You know I‘ll be free,“

Það væri hægt að eyða ótal fleiri orðum í að telja upp afrek og uppátæki Bowie í gegnum árin. Hér hefur t.d. ekkert verið vikið að helsta tilbrigði hans við meginstrauminn Lets dance eða að hinum ódauðlega dúett „Under pressure“ sem hann söng ásamt Freddie Mercury. Bowie bjó hinsvegar þannig um hnútana að eitt hans minnisstæðasta afrek er það að takast að láta aðdáendur sína vita af yfirvofandi dauðdaga sínum en koma þeim samt á óvart með því að deyja.

Kannski grunaði fyrrnefndan Harrison það, því grein hans um útgáfu Blackstar inniheldur ítrekaðar vísanir í hvarf hans af sjónarsviðinu sem virðast svo aftur vísa í dauða hans.

„Ég held reyndar að á laun hafi hann lengi langað til að halda á brott,“ segir ævisagnaritarinn Paul Trynka í greininni. „Julian Temple sagði mér að jafnvel á níunda áratugnum hefði Bowie langað til að láta sig hverfa með mikilfenglegum hætti – framkvæma galdrabragð.“

Af 25 breiðskífum var Blackstar sú fyrsta til að bera ekki mynd af Bowie á plötuumslaginu en í hans stað kom svört stjarna, hans seinasta hliðarsjálf. „I‘m not a pop star (...) I am a blackstar“ syngur Bowie, í titillagi plötunnar. Myndbandið við lagið hefst á mynd af látnum geimfara sem hefði átt að vera nógu sterk vísbending en í ofanálag er texti lagsins „Lazarus“, hvers titill er vísun í mann sem Jesús Kristur á að hafa reist upp frá dauðum, sveipaður hugsunum deyjandi manns.

„Look up here, I‘m in heaven,“ og „You know I‘ll be free, just like that bluebird,“ syngur Bowie sem í myndbandinu virðist berjast við að svífa upp af sjúkrarúmi og við að ljúka við bréfaskriftir, á meðan svört hauskúpa á skrifborðinu segir til um það sem koma skal.

Myndbandið er það síðasta sem gefið var út á meðan Bowie var enn á lífi en í lok þess hverfur hann inn í skáp og lokar á eftir sér. Þremur dögum síðar var hann horfinn, eins og fyrir töfra, án þess að nokkur hafi áttað sig á því að hann væri að kveðja.

Titill lokalags plötunnar segir allt sem segja þarf um af hverju töframaðurinn sagði ekki beint út að hann myndi halda á vit feðra sinna: „I Can‘t Give Everything Away“.

Eftirmæli BBC
Eftirmæli Guardian 


music video david bowie blackstar

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú vilt hafa hlutina í röð og reglu en skalt varast það að ganga of langt í þeim efnum. Vertu á varðbergi gegn freistingum og gylliboðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú vilt hafa hlutina í röð og reglu en skalt varast það að ganga of langt í þeim efnum. Vertu á varðbergi gegn freistingum og gylliboðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Loka