Áhorfendur Channel 5, sem sýnir raunveruleikaþáttinn Big Brother, gagnrýna stjórnendur þáttanna harðlega og ásaka þá um að notfæra sér andlát David Bowies til að auka áhorfstölur.
Fyrrverandi eiginkona söngvarans, Angie Bowie, er þátttakandi í raunveruleikaþáttunum sem byggðir eru á skáldsögu George Orwell, 1984, en í þeim er hópur fólks látinn búa undir sama þaki þar sem fylgst er með þeim öllum stundum. Þátttakendur fá litlar fréttir af umheiminum á meðan dvöl þeirra í húsinu stendur.
Í gær sjónvarpaði Channel 5 myndskeiði þar sem Angie Bowie sést eyðilögð vegna fréttanna af láti fyrrverandi eiginmanns hennar. Myndskeiðið hefur vakið reiði meðal aðdáenda söngvarans, en margir lýstu vanþóknun sinni yfir á samfélagsmiðlum líkt og fram kemur í frétt Telegraph.
Talsmaður þáttanna lýsti því yfir Angie Bowie hafi verið greint frá láti söngvarans í einrúmi, fjarri öllum myndavélum, en hún hafi engu að síður kosið að halda áfram keppni.
„Í kjölfar sorglegra frétta af fráfalli David Bowie getum við staðfest að fulltrúar Angie Bowie hafa látið hana vita af fráfalli Bowies, fjarri myndavélum.“
„Hún hefur ákveðið að halda áfram í þættinum, en ákvörðun hennar að halda kyrru fyrir í húsinu er hennar eigin. Henni hefur verið boðið að draga sig í hlé ef henni snýst hugur.“
Angie og David Bowie voru gift í 10 ár, en þau skildu árið 1980. Saman áttu þau soninn Zowie, sem síðar breytti nafni sínu í Duncan.
Myndbandið má sjá hér að neðan.