Bandaríska glanstímaritið GQ segir frá því í dag að það hafi fundið íslenskan tvífara Leonardo DiCaprio. Ágúst Ævar Guðbjörnsson er þó sagður síst líkur Hollywood-leikaranum af þeim tvíförum sem blaðið hefur fjallað um, en hinir eru frá Svíþjóð og Rússlandi.
„Af hinum sænska, rússneska og íslenska tvífara er þessi ef til vill síst Leo-legur. Eins og að eitthvað hafi borist í tilraunaglasið á DiCaprio-klónunarstofunni - vottur af Jude Law; eða bara klípa af kollvikaskalla,“ segir blaðið um Ágúst.
Með fréttinni birtir GQ Facebook-færslu unnustu Ágústar, Andreu Björnsdóttur, en hinn íslenski Leo kom af fjöllum þegar mbl.is setti sig í samband við hann til að spyrja út í hina nýfengnu frægð.
„Ertu að grínast í mér? Vá hvað ég vissi þetta ekki.. Ó mæ gad!“ sagði Ágúst og hló, þegar hann komst að því að á hann væri minnst á forsíðu netútgáfu hins þekkta tímarits. „Er ég þá orðin frægur?“
Í Facebook-færslunni segist Andrea upplifa fjölgun ferðamanna með þeim hætti að hún sé oftar beðin um að taka myndir af þeim með unnustanum. Kannast Ágúst við þetta?
„Ég get ekki farið út að borða í Reykjavík nema ég sé beðinn um það,“ segir hann. „Ef ég fer á Laugaveginn þá er ég eiginlega alltaf stoppaður. Það er auðvitað meira á föstudags- og laugardagskvöldum þegar fólk er búið að fá sér einn bjór, þá er það bara: „Hei, þú ert alveg eins og Leonardo DiCaprio“. Þá er komið þor í fólk, annars horfa margir.“
Ágúst segir þó ekki um það að ræða að fólk taki hann í misgripum fyrir leikarann og segist nú bara hafa gaman að.
En hvað finnst honum sjálfum um samanburðinn?
„Það er náttúrlega svipur...“ segir hann.
En sér hann Leo í speglinum?
„Nei ekki alveg. Ég held að ég sé of vanur mér.“