Fréttir herma að rapparinn Kanye West sé að vinna að nýrri plötu til heiðurs David Bowie. Að sögn hefur West þegar hafist handa við að setja gamlar perlur Bowies, líkt og Changes, Heroes og Rebel, Rebel í nýjan búning.
Sum lögin eru sögð vera ábreiður þar sem Kanye syngur lög Bowies. Einnig hyggst hann rappa eigin texta yfir tónlist söngvarans.
Ekki eru allir á eitt sáttir við áform rapparans, en á síðunni 38degrees er að finna undirskriftasöfnun þar sem leitast er eftir því að West verði bannað að vinna með tónlist Bowies.
„Komið í veg fyrir að Kanye West fái að taka upp ábreiðulög eftir David Bowie.“
„David Bowie var einn mikilvægasti tónlistarmaður 20. og 21. aldarinnar, það væru helgispjöll ef Kanye West fengið að eyðileggja tónlistina hans“ stendur við áskorunina.
Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 6.200 manns skrifað undir áskorunina. Ekki kemur fram hvað gera eigi við undirskriftirnar eftir að tilætluðum fjölda hefur verið náð.