Ke$ha: Föst milli steins og sleggju

Mörgum þykir mál Keshu segja ýmislegt um meðferð skemmtanabransans á …
Mörgum þykir mál Keshu segja ýmislegt um meðferð skemmtanabransans á konum almennt og það ekkert fallegt.

Þegar poppsöngkonan Ke$ha var upp á sitt besta var hún þyrnir í augum margra, tónlistarunnenda. Hún hafði merkilegt lag á því að fara í taugarnar á fólki með rödd sinni, háttalagi, klæðaburði, lagasmíðum og jafnvel því hvernig hún stafaði nafnið sitt. Frægð hennar og tónlist þótti verksmiðjuframleidd og af mörgum var hún afskrifuð sem brandari, hvað sem öllum smellum og samstarfi við virtari tónlistarmenn leið.

Um gildi Keshu sem tónlistarmanns má sannarlega deila en hafi hún einhvern tíma verið brandari þá er hún það ekki lengur og hefur ekki verið í nokkur ár. Sú breyting er ekki komin til af góðu.

Kesha hvarf mestmegnis af sjónarsviðinu árið 2012 eftir að hafa gefið út plötuna Warrior sem innihélt meðal annars lagið „Die Young“. Um tveimur árum síðar, í október 2014, lagði lögmaður hennar, Mark Geragos, fram kæru fyrir hennar hönd gegn upptökustjóranum dr. Luke (Lukasz Gottwald) fyrir ítrekað kynferðislegt ofbeldi. Dómstólar eiga enn eftir að taka afstöðu til þess hluta kærunnar en málið er flóknara en svo því Kesha hefur verið samningsbundin dr. Luke frá árinu 2005 og síðastliðinn föstudag var henni meinað um lögbann á samninginn fyrir rétti í New York.

Valdbeiting og valdaleysi

Eina lagið á plötunni Warrior til að ná mikilli athygli var „Die Young“ en það var tekið úr spilun fáeinum vikum síðar þegar fjöldamorðið í Sandy Hook barnaskólanum átti sér stað. Kesha baðst afsökunar á efni textans fljótlega í kjölfarið í tísti sem nú hefur verið eytt.

„Ég skil. Ég var sjálf ekki sátt við „Die Young“ af þessari ástæðu. Ég vildi EKKI syngja þessa texta og ég var NEYDD TIL ÞESS!“

Þessi yfirlýsing auk raunveruleikaþátta um gerð plötunnar leiddu til þess að aðdáendur Keshu sem kalla sig „Animals“ eða „Dýr“ settu upp undirskriftalista árið 2013 þar sem þess var krafist að hún yrði frelsuð undan samningi sínum við dr. Luke og sögðu hann halda aftur að sköpunargáfu hennar.

Í viðtali við Rolling Stone sama ár játaði Kesha að hún hefði ekkert vald yfir þeirri tónlist sem hún hefði gefið út og sagði hana gefa ranga mynd af henni sem listamanni.

Í janúar 2014 fór Kesha í meðferð vegna átröskunar. Móðir hennar staðfesti síðar að Kesha þjáðist af lotugræðgi og lýsti því yfir að ástand hennar væri dr. Luke að kenna. Hélt hún því meðal annars fram að upptökustjórinn hefði kallað söngkonuna „fokking ísskáp“ við tökur á tónlistarmyndbandi.

Sú ásökun rataði seinna í kæruna á hendur honum.

„Luke gagnrýndi þyngd fröken Sebert af illkvittni og án afláts, m.a. blygðunarlaust fyrir framan annað fólk í þeim eina tilgangi að niðurlægja fröken Sebert. Hann skipaði henni endurtekið að hætta að borða og léttast. Dr. Luke átti það til að kalla fröken Sebert „fokking feitan ísskáp“.

Á meðan Kesha var í meðferðinni skrifaðist hún reglulega á við aðdáendur sína en þau samskipti voru síðar afhjúpuð af Buzzfeed. Í einu slíku bréfi segir hún upptökustjórann hafa „pyntað“ hana og fjölskyldu hennar. 

DailyEdge segir lögmenn stjörnunnar halda því fram að læknar á meðferðarstöðinni hafi komist að þeirri niðurstöðu að dr. Luke hefði valdið henni líkamlegum og andlegum skemmdum upp að því marki þar sem áframhaldandi samskipti þeirra á milli gætu verið lífshættuleg.

„Edrú pillur“ voru smjörsýra

Samkvæmt Jules LeFevre hjá FasterLouder lagði lögmaður Keshu Rose Sebert, eins og hún heitir fullu nafni, fram 28 síðna skjal með ásökunum á hendur dr. Luke hinn 13. október 2014.

Þar sé því meðal annars haldið fram að hann hafi oftar en einu sinni neytt söngkonuna til að neyta fíkniefna til að geta misnotað hana á meðan hún var í vímu. Sömuleiðis hafi hann síendurtekið misnotað hana kynferðislega þegar hún var drukkin eða í vímu, jafnvel í eitt skipti þar sem hún var svo illa haldin að hún kastaði upp yfir sig.

„Í annað skipti, eftir að hafa neytt fröken Sebert til að drekka með honum, lét dr. Luke fröken Sebert taka það sem hann sagði vera „edrú pillur“ svo það myndi renna af henni. Fröken Sebert tók pillurnar og vaknaði næsta morgun, nakinn í rúmi dr. Luke, aum og veik án þess að muna nokkuð hvernig hún komst þangað,“ hefur LeFevre eftir dómsgögnunum.

„Fröken Sebert hringdi strax í móður sína og lagði fram nýja kvörtun, sagði henni að hún væri nakin á hótelherbergi dr. Luke, að hún vissi ekki hvar fötin hennar væru, að dr. Luke hefði nauðgað henni og hún þyrfti að fara á neyðarmóttöku. Fröken Sebert komst síðar að því að „edrú pillurnar“ sem dr. Luke hafði gefið henni voru raunar smjörsýra (GHB) betur þekkt sem nauðgunarlyf, sem gerði honum kleift að færa fröken Sebert eina á hótelherbergi sitt og nauðga henni á meðan hún var meðvitundarlaus.“

 

A photo posted by Kesha (@iiswhoiis) on Feb 17, 2016 at 5:06pm PST

 

Verður að vinna með meintum nauðgara sínum

Í sama mánuði kærði dr. Luke Keshu á móti. Segir hann Keshu og móður hennar standa fyrir ófrægingarherferð þar sem þær reyni að kúga hann til að leysa hana undan samningi við fyrirtæki sitt með fölskum og sláandi ásökunum.

Um svipað leyti komst dómari í Los Angeles að þeirri niðurstöðu að birta bæri vitnisburð Keshu frá árinu 2011 í kærumáli milli Gottwald og DAS Entertainment þar sem hún sagði dr. Luke aldrei hafa haft uppi kynferðislega tilburði við hana en sagðist ekki muna hvort hann hefði nokkurn tíma gefið henni kókaín eða nauðgunarlyf.

Kesha skrifaði undir samninginn árið 2005 og þykir nokkuð óvenjulegt að ekki hafi verið samið um skilyrði hans að nýju síðan þá. LeFevre segir slíka samninga ráðast oftast af velgengni viðkomandi listamanns, yfirleitt til að halda öllum aðilum sáttum.

„Það sem er sérlega mikilvægt er að samningur Keshu innihélt fjölda einkaréttarákvæða sem kváðu á um að Kesha gæti ekki unnið með neinum öðrum en Kemosabe Entertainment og undir leiðsögn dr. Luke. Til að uppfylla samninginn sinn þarf hún að taka upp þrjár plötur í viðbót. Í grundvallaratriðum getur Kesha ekki unnið með neinum nema meintum nauðgara sínum.“

Lögmenn Keshu bættu Sony Music við kæruna í júní síðastliðnum og segja fyrirtækið bera hluta af ábyrgðinni á þeirri misnotkun sem hún hefur mátt þola. Samkvæmt samningi Keshu þurfa öll lagaleg ágreiningsmál hennar að fara fyrir rétt í New York og var málið því fært þangað í sama mánuði þrátt fyrir mótbárur lögmanna hennar sem vildu að réttarhöldin færu fram í því ríki sem hin meintu kynferðisbrot áttu sér stað.

A photo posted by Kesha (@iiswhoiis) on Dec 24, 2015 at 6:26pm PST

„Sýndarfrelsi“ í boði Sony

Málið var tekið fyrir síðastliðinn föstudag. Lögmenn Keshu héldu því fram að sökum skammlífs eðlis starfsferils meðal poppstjörnunnar myndi ferill hennar verða fyrir ómældum skaða fengi hún ekki lögbann á samninginn. Lögmenn dr. Luke sögðu málið vera tilraun til kúgunar og að fullyrðingar Keshu um skaða væru ýktar, óskýrar og of seint tilkomnar.

Dómarinn í málinu, Shirley Kornreich, benti á skort á læknisfræðilegum gögnum sem stutt gætu við kynferðisbrotakæruna auk þess sem hún sagði þá staðreynd að Sony hefði boðist til að leyfa Keshu að gera plötu án dr. Luke „gjöreyðileggja“ rökin fyrir lögbanninu.

Lögmenn hennar sögðu tilboðið vera sýndarmennsku og að Sony myndi aldrei fylgja plötu án dr. Luke eftir með auglýsingum og kynningum. Þannig yrðu lögin að „dauðum upptökum“. Sögðu þeir einnig að Sony stæðu mun fremur með upptökustjóranum en söngkonunni þar sem hann væri arðbærari fjárfesting, en hann hefur unnið með stjörnum á borð við Britney Spears, Jessie J og Katy Perry.

Dómarinn sagði þann skaða sem Sony yrði fyrir ef Kesha þyrfti ekki að fylgja samningnum vera óbætanlegan og að slík ákvörðun myndi grafa undan lögum ríkisins. „Eðlisávísun mín segir mér að gera það sem er markaðslega ábyrgt.“

Henda peningum í vandamálið

LeFevre segir að Kesha hafi brotnað niður kjökrandi þegar dómarinn kvað upp dóm sinn. LeFevre segir hundruð aðdáenda hafa beðið hennar utan við dómshúsið til að styðja við bakið á henni en að auki hafa notendur samfélagsmiðla nýtt myllumerkið #FreeKesha á til að sýna stuðning sinn.

Þar á meðal eru ýmis fræg nöfn, Lady Gaga, Lorde og Ariana Grande m.a. en mest hefur borið á söngkonunni Demi Lovato. Sú gaf í skyn að henni þætti lítið til Taylor Swift koma þrátt fyrir að Swift hefði gefið Keshu 250 þúsund Bandaríkjadali til að verjast fjárhagsörðugleikum vegna málaferlanna. Virðist Lovato standa í þeirri meiningu að Swift eigi að beita sér með pólitískum hætti frekar en að „henda peningum í vandamálið“.

En hvað gerir Kesha? Í yfirlýsingu lögmanna dr. Luke sem Rolling Stone birti í dag segir að henni sé frjálst að vinna með hverjum sem hún vill. Eins og fram kom hér að framan má þó deila um hversu raunverulegt frelsið er en auk þess sem hún óttast að hætta á „dauðar upptökur“ hefur Kesha haldið því fram að önnur útgáfufyrirtæki í meginstraumnum vilji ekki vinna með henni af ótta við lögsókn.

Matt Stopera hjá Buzzfeed segir útlit fyrir að það hafi verið áætlun dr. Luke frá upphafi, og vísar í kæru Keshu.

„Eftir að hann byrlaði drykk og nauðgaði fröken Sebert, fór Dr. Luke með hana eina niður á ströndina til að „eiga við hana samtal“. Hann hótaði henni því að ef hún minntist á nauðgunina við nokkurn mann myndi hann binda endalok á feril hennar, svipta hana öllum réttindum sínum til útgáfu og upptöku og að öðru leyti binda enda á ekki bara líf hennar heldur allrar fjölskyldu hennar."

Upprunalegu kærur Keshu um kynferðislega misnotkun, sem og gagnkærur dr. Luke hafa ekki verið teknar fyrir enn og eins og LeFevre segir er baráttan fyrir dómstólum rétt að byrja. Á meðan situr Kesha föst.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan