Fyrrverandi stjórnandi Top Gear þáttaraðarinnar, Jeremy Clarkson, hefur beðið einn framleiðanda þáttanna afsökunar á því að hafa gefið honum kjaftshögg. Sátt hefur nást um að hann greiði fórnarlambinu 100 þúsund pund í bætur.
Oisin Tymon hóf málsókn gegn Clarkson og BBC eftir að til átaka kom á milli þeirra í mars í fyrra.
„Ég vil biðja Oisin Tymon enn og aftur afsökunar á atvikinu og því sem kom á eftir,“ segir Clarkson. Hann ítrekar að atvikið sé alfarið á hans ábyrgð og að Tymon hafi ekki átt neina sök að máli.
Clarkson var vikið frá störfum hjá BBC í kjölfar árásarinnar. Clarkson og Tymon rifust í hátt í 40 mínútur að sögn vitnis og Clarkson á að hafa ausið yfir hann fúkyrðum áður en hann kýldi hann í andlitið. Á Clarkson að hafa kallað framleiðandann meðal annars „írskan, latan hálfvita (e. lazy irish cunt).“ Rifrildið á að hafa byrjað eftir að Clarkson kvartaði yfir því að ekki væri á boðstólnum heit máltíð fyrir þáttastjórnendurna eftir að þeir komu heim af krá í nágrenninu.