Söngkonan Kesha, sem stendur nú í lagadeilum við útgáfurisann Sony og upptökustjórann Dr. Luke hefur birt á Facebook síðu sinni yfirlýsingu þar sem hún þakkar fyrir allan þann stuðning sem hún hefur fengið.
Málið hefur vakið mikla athygli, sérstaklega eftir að Kesha var neitað um lögbann á samning sinn við Sony fyrir rétti í New York í síðustu viku. Kesha heldur því fram að Dr. Luke hafi beitt hana kynferðislegu og andlegu ofbeldi.
Á Facebook segist Kesha þakklát fyrir allan stuðninginn. „Orð geta ekki lýst tilfinningunum sem ég hef farið í gegnum við það að lesa og sjá hversu magnaðir allir hafa verið gagnvart mér. Ég trúi því varla að svona margir um allan heim hafi tekið sér tíma og sýnt mér stuðning og ást.“
Sagði hún jafnframt að með því að sýna henni stuðning væru aðrir listamenn að stofna þeirra eigin ferlum í hættu. „Ég verð að eilífu þakklát.“
„Eina sem ég hef nokkurn tímann viljað er að geta skapað tónlist án þess að vera ógnað, hrædd og misnotuð. Þetta hefur aldrei snúist um viðræður um nýjan samning, þetta snerist aldrei um að fá stærri eða betri kjör,“ skrifaði Kesha. „Þetta snýst um að ég fái að vera frjáls frá manninum sem misnotaði mig. Ég væri til í að vinna með Sony ef þeir myndu gera það rétta og slíta á öll tengsl sem tengja mig við manninn sem beitti mig ofbeldi.“
Sagði hún að málið væri þó orðið stærra og snerist ekki lengur bara um hana.
„Ég hugsa um ungar stúlkur í dag – Ég vil ekki að framtíðar dóttir mín – eða dóttir þín – eða einhver verði hræddur um refsingu ef þeir ákveði að tjá sig um misnotkun, sérstaklega ef að níðingurinn er í valdastöðu.“
Sagðist hún ekki halda að hennar mál myndi hvetja önnur fórnarlömb til þess að segja sögu sína. „Það er vandamál,“ skrifaði söngkonan.
Lagði hún áherslu á að fórnarlömb misnotkunar mættu ekki vera hrædd við að segja frá brotunum. „Það eru staðir sem þú getur fundið öryggi. Það er fólk þarna úti sem mun hjálpa þér. Ég mun standa við hliðina á þér og bakvið þig.“
Endaði hún færsluna á að segjast vera mikill femínisti en fyrst og fremst mannvinur. „Ég trúi á það að styðja aðra í því að vera öruggir. Við erum í þessu saman. Þið eruð ekki ein.“
I'm so, so beyond humbled and thankful for all of the support I'vereceived from everyone. Words cannot really express...
Posted by Kesha on Wednesday, February 24, 2016