Atli Óskar Fjalarsson er nafn sem áhugafólk um kvikmyndir og leiklist ætti að leggja á minnið. Þeir sem elska að fylgjast með velgengni Íslendinga erlendis ættu líka að fylgjast vel með þessum 23 ára leiklistanema sem stundar nú nám við New York Film Academy í Los Angeles.
Atli var nýlega útnefndur rísandi stjarna ásamt níu öðrum evrópskum leikurum á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín, Berlinale. Útnefninguna hlaut hann meðal annars fyrir hlutverk sitt í Þröstum, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar sem fór sigurför um kvikmyndaheiminn á síðasta ári. Atli var tilnefndur sem leikari í aðalhlutverki á Edduverðlaununum sem veitt voru í kvöld, ásamt Gunnari Jónssyni fyrir hlutverk sitt í Fúsa og Sigurði Sigurjónssyni fyrir hlutverk sitt í Hrútum. Ekki amalegur hópur að tilheyra.
Atli er þó voða rólegur yfir þessu öllu saman þegar blaðamaður mbl.is slær á þráðinn til hans í gegnum Facebook (þar eru ekki bara nýir tilfinningakarlar, síminn er víst löngu mættur líka). Atli er nýkominn frá Yosemite-þjóðgarðinum þar sem hann eyddi helginni í fjallgöngum og kærkominni afslöppun með kærustunni. Vikunni á undan hafði hann eytt á rauða dregilinn, í kokkteilpartíum og í viðtölum við leikstjóra á Berlinale. En ætlaði Atli alltaf að elta leiklistardrauminn til Los Angeles?
„Ég veit það ekki alveg, þetta var bara athyglissýki til að byrja með held ég,“ segir Atli, og á þá við leiklistaráhugann. Atli nýtti sér Youtube til að koma skoðunum sínum og vangaveltum á framfæri þegar hann var yngri og var jafnvel farinn að þekkjast undir notendanafninu Atli123 meðal jafnaldra sinna. „Sum myndböndin eru ennþá inni á Youtube og það er bara gaman að rifja þau upp,“ segir Atli. Einn flokkurinn nefnist Eintal og þar tók Atli hin ýmsu málefni fyrir:
Það sem Atli kallar athyglissýki myndu aðrir eflaust kalla leiklistarhæfileika. „Mamma og pabbi kynntust í Leikfélagi Kópavogs fyrir mörgum árum en hvorugt þeirra fór út í leiklist. Mamma er kennari og pabbi fór út í „PR stöff“. Ég ætlaði aldrei að verða leikari, ég ætlaði bara að verða læknir eða eitthvað. Ég fór meira að segja í Versló og var á náttúrufræðibraut. Svo bara læddist þetta upp að mér og þegar ég var búinn að gera Óróa, 17 ára gamall, fattaði ég að ég yrði að hætta að ljúga að sjálfum mér og verða bara leikari.“
Atli lék í sinni fyrstu kvikmynd 14 ára gamall, stuttmyndinni Smáfuglar eftir Rúnar Rúnarsson. „Ég tók þátt í Stóru upplestrarkeppninni þegar ég var 12 ára og lenti í öðru sæti. Þá fattaði ég að það væri kannski hægt að gera eitthvað með hæfileikann að lesa upp og fór í hljóðprufu hjá Sýrlandi hljóðsetningu. Ég byrjaði að lesa inn á teiknimyndir og bíómyndir í kjölfarið.“
Rúnar hafði samband við Sýrland og komst þannig í kynni við Atla. „Ég var boðaður í prufu, en þetta var svolítið fullorðins, verið að reykja og drekka og bæði ég og mamma vorum ekki alveg viss með þetta, þarna var ég bara 14 ára polli. En svo hringdi framleiðandinn í mömmu og grátbað hana um að leyfa mér að fara. Ég kíkti í prufu og svo gekk þetta allt upp einhvern veginn. En það hefði ekkert gerst nema ef mamma hefði sagt já.“
Atli ólst upp í Laugardalnum og eftir að grunnskólagöngunni lauk lá leið hans í Verslunarskólann, þar sem hann hélt að hann ætlaði að undirbúa sig fyrir læknanám.
„Ég var í Versló í alveg heila önn, áður en ég skítféll. Það var svo gaman í skólanum, skemmtilegir krakkar og félagslíf, að ég mátti ekkert vera að því að læra.“ Eftir eina önn lá leiðin í Borgarholtsskóla, en þar gekk námið að óskum þar til Atli uppgötvaði leiklistarfélagið. „Það gekk ágætlega fyrstu vikurnar áður en ég datt inn í leikfélagið, þá fór allt í fokk. Þegar kom að prófunum skítféll ég aftur og þurfti að finna mér nýjan skóla. Þá fór ég yfir í Tækniskólann og langaði að prófa að læra forritun. Ég entist í því í alveg eitt og hálft ár. Svo fór ég í leikfélagið þar líka og þá komst ekkert annað að.“
Atli ákvað því að taka sér hlé frá námi og sinna leiklistinni og lék í nokkrum stuttmyndum og tónlistarmyndböndum. „Ég lék mér að því að vera leikari á Íslandi. Ég áttaði mig svo á því að ég þyrfti að klára skólann eða fara að læra leiklist. Ég vissi að mig langaði að læra í Bandaríkjunum og stúdentspróf var skilyrði í þeim skólum sem ég var að skoða. Ég neyddist því til að klára þetta helvítis stúdentspróf, sem ég sé alls ekki eftir,“ segir Atli, sem fór í kvöldskóla í MH.
„Ég var bara búinn með skít á priki eftir fjögurra ára skólagöngu en tókst að klára stúdentinn á tveimur árum. Ég þurfti að hafa mig allan við en þetta var bara spurning um að setjast niður og nenna þessu.“
Samhliða kvöldskólanum fékk Atli hlutverk í kvikmyndinni Óróa og segir hann að sú mynd hafi verið ákveðinn stökkpallur. „Bæði fyrir önnur verkefni og fyrir mig sjálfan. Ég áttaði mig á því að þetta væri ekki bara eitthvað sem maður leikur sér að úti í horni heldur væri hægt að gera þetta að atvinnu. Á settinu í Óróa kynntist ég öllum rosa vel og hvað hver og einn gerði í sinni stöðu. Þarna varð ég eiginlega ástfanginn af bíói sem listformi.“
Í framhaldinu af Óróa fékk Atli aukahlutverk í kvikmyndinni Gauragangi. „Myndirnar komu út um svipað leyti árið 2010 og þá var ég allt í einu með tvær stórar myndir undir beltinu og fannst ég vera voða stór karl,“ segir Atli og hlær. Stuttu seinna hitti hann á förnum vegi Rúnar Rúnarsson, sem sagði honum frá Þröstum, sem þá var á undirbúningsstigi.
„Þarna var ég kominn með skegg og sítt hár, orðinn svolítið karlalegur. Ég spurði hvort hann væri ekki með hlutverk fyrir gamla en hann sagði að það myndi ekki ganga upp þar sem hann væri að leita að ungum krökkum.“ Nokkrum vikum seinna var Atli að vinna með eiginkonu Rúnars við auglýsingu. „Þá var ég búinn að raka mig og klippa hárið, gera mig svolítið sætan og ungan. Hún pikkaði í Rúnar og ég fékk að koma í prufu og framleiðendurinir „gúdderuðu“ að ég, 22 ára, gæti litið út fyrir að vera 16 ára. Þannig fékk ég hlutverkið í Þröstum.“
Það eina sem aldur Atla kom í veg fyrir í myndinni var söngröddin, en rödd kórdrengsins Ara var ekki sungin af Atla, og heldur ekki af kórdreng, heldur var nítján ára stelpa fengin í verkið. „Það eru reyndar mjög margir sem kaupa að þetta sé röddin mín, en ekki allir. En það er enginn sem fattar að þetta sé stelpa að syngja, held ég,“ segir Atli.
Tveimur mánuðum eftir að tökum á Þröstum lauk flutti Atli til Los Angeles. Þar stundar hann nám við New York Film Academy. Spurður hvort lífið í borg englanna sé ekki bara eitt stórt partí og strandarferðir segir Atli ekki svo vera.
„Fólk skoðar myndir af manni á Facebook og heldur að maður sé bara á brimbretti og það hváir og spyr: „Hvað? Ertu aldrei í skólanum? Ertu bara niðri á strönd?“ En ég er ekkert að pósta myndum af mér í skólanum, ég held að fólk hafi ekki mikinn áhuga á því. En þetta er auðvitað snilld, hér er alltaf sól og ég keyri um á gulum blæjubíl.“
Lífið gengur þó sinn vanagang í LA líkt og annars staðar í heiminum. „Maður er alveg í hversdagsleika, en ég er að standa mig drulluvel í skólanum þar sem ég er heiðursnemandi og það er fyrst og fremst það sem ég er að gera.“ Það að vera heiðursnemandi þýðir að Atli er með A- í meðaleinkunn, eða 3,5 af 4 í GPA (e. Grade Point Average).
Í lok síðasta árs frétti Atli af því að hann hefði verið valinn í hóp rísandi stjarna á Berlinale, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín. Valið er í höndum European Film Promotion (EFP) og velja samtökin 10 unga og efnilega leikara og leikkonur úr hópi aðildarlanda samtakanna sem vakið hafa athygli og kynna þá sérstaklega á Berlinale-kvikmyndahátíðinni.
Hátíðin stóð yfir 11.-21. febrúar og fór Atli til Berlínar, þar sem hann tók þátt í dagskrá þar sem rísandi stjörnurnar voru kynntar. „Þetta var ótrúlega mikið ævintýri og helgin var pökkuð af viðtölum, myndatökum og kokkteilboðum. Kvöldið sem við vorum kynnt mættum við á svæðið hvert í sínum Audi-bílnum og gengum rauða dregilinn. Það vissi örugglega enginn hver við vorum en það var allt í lagi.“
Með útnefningunni fetar Atli meðal annars í spor Ingvars E. Sigurðssonar, sem var fyrsti íslenski leikarinn til að komast í þennan hóp, og Heru Hilmarsdóttur, sem hlaut útnefninguna í fyrra. Auk þess hafa leikarar á borð við og Daniel Brühl og Daniel Craig tilheyrt þessum hópi.
„Af þeim sem ég hef séð heillar Domhnall Gleeson mig mest,“ segir Atli. Skiljanlega kannski, en Írinn lék meðal annars í The Revenant og mun fara með hlutverk í næstu Star Wars-mynd.
Hugur Atla er þó að stórum hluta enn á Íslandi, þó svo að bandaríski kvikmyndaheimurinn heilli óneitanlega. Íslandsför er þó ekki á dagskránni á næstunni. „Mig langaði alveg að koma heim og hitta alla sem komu að Þröstum í tengslum við Edduna. En ég er búinn að skrópa í viku í skólanum fyrir Berlín, ætli maður verði ekki að sinna honum aðeins.“
Atli mun útskrifast sem leikari vorið 2017 en honum tekst samt sem áður að hlaða á sig verkefnum meðan á náminu stendur. „Það er slatti í bígerð, bíómyndir sem ég er að skoða heima á Íslandi og úti en má ekki segja frá strax, því miður. Svo er ég líka í viðræðum við stóra umboðsskrifstofu hérna úti.“
En er draumurinn að starfa sem leikari í LA? „Það fer bara eftir því hver vinnan er. Ég er allavega ekkert að flýta mér að koma heim.“