Sam Smith varð í kvöld fyrsti opinberlega samkynhneigði maðurinn til þess að vinna Óskarsverðlaun; líklega.
Bent er á að Elthon John fékk Óskarsverðlaunin fyrir lag úr kvikmyndinni Lion King árið 1995 en hann kom út úr skápnum árið 1976.
Smith vann verðlaunin fyrir lagið „Writings on The Wall“ úr kvikmyndinni Spectre og deildi þeim með samstarfsmanni sínum Jimmy Napes.
Þegar hann tók á móti verðlaununum vísaði Smith í Ian McKellen sem hefur tvisvar verið tilnefndur en aldrei unnið. Nýlega sagði McKellen frá því að í bæði skiptin hefði hann verið með sömu ræðuna tilbúna í jakkafatavasanum og að hún hefði hafist á orðunum: „Ég er stoltur af því að vera fyrsti opinberlega samkynhneigði maðurinn til að vinna Óskarsverðlaunin.“
Smith sagðist ekki vita hvort það væri rétt að hann væri sá fyrsti enda er erfitt að segja til um hvort rétt sé þar sem Óskarsverðlaunahafar eru misfrægir. Líklega er þó hægt að fullyrða að hann sé fyrsti samkynhneigði skemmtikrafturinn til að vinna verðlaunin og sá fyrsti í „frægu“ flokkunum. Verðlaunin tileinkaði hann LGBT samfélaginu í heild.
„Ég stend hér í kvöld sem stoltur samkynhneigður maður og ég vona að einn daginn getum við öll staðið saman sem jafningjar,“ sagði Smith áður en hann gekk af sviðinu, sæll með sitt.