Sjónvarpsáhorfið á nýjustu Óskarsverðlaunaafhendingu var í sögulegu lágmarki í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC. Aðeins í kringum 34,3 milljónir Bandaríkjamanna horfðu á verðlaunaafhendinguna í beinni sjónvarpsútsendingu, en áhorfið hefur ekki verið minna í átta ár og er með því minnsta sem þekkist í sögu verðlaunanna.
Samkvæmt frétt BBC er talið að skýra megi lítið áhorf með því að ýmsir höfðu hvatt almenning til að sniðganga verðlaunin. Þeirra á meðal var mannréttindafrömuðurinn Al Sharpton sem hvatti almenning til að horfa ekki til þess að mótmæla því að annað árið í röð væri enginn í hópi tilnefndra verðlaunahafa dökkur á hörund.
„Áhorfstölurnar benda til þess að málflutningur okkar hafi haft áhrif þrátt fyrir háðsglósurnar sem mótmælin fengu,“ er haft eftir Sharpton í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna málsins.