Fjölmiðlar vestanhafs hafa nú greint frá því að Sony Music sé að undirbúa að slíta samningi við upptökustjórann Lukasz Gottwald eða Dr. Luke, vegna lagadeilna hans við söngkonuna Kesha. Mikil umræða hefur myndast um málið upp á síðkastið en Kesha hefur sakað Dr. Luke um að hafa beitt hana kynferðislegu, líkamlegu og andlegu ofbeldi. Dr. Luke neitar ásökununum.
Nú hefur lögmaður Dr. Luke neitað því að Sony ætli að losa sig við Dr. Luke en samningur upptökustjórans á ekki að renna út fyrr en eftir ár. „Þetta er ekki satt. Luke er í frábæru sambandi við Sony. Fulltrúar hans eru í stöðugu sambandi við yfirmenn Sony og þetta hefur aldrei verið nefnt,“ sagði Christine Lepera, lögmaður Dr. Luke í yfirlýsingu.
Það var miðillinn Wrap sem sagði frá því í gær að Sony ætlaði að slíta samningi sínum við Dr. Luke. Að sögn ónafngreinds heimildarmanns vill fyrirtækið ekki líta út fyrir að styðja ekki við bakið á fórnarlömbum kynferðisofbeldis en fjölmargar kvenstjörnur hafa opinberlega lýst yfir stuðningi við Kesha, m.a. Adele á Brit verðlaununum í síðasta mánuði.
Deilur Kesha við Dr. Luke og Sony hafa vakið mikla athygli og þá sérstaklega eftir að söngkonunni var meinað um lögbann á samning sinn við Dr. Luke af dómara í New York í febrúar. Eins og fyrr segir hafa fjölmargir lýst yfir stuðningi við Kesha en söngkonan Taylor Swift tók sig til og gaf Kesha 250.000 Bandaríkjadali (32.5 milljónir íslenskra króna) til þess að aðstoða hana í baráttunni. Kesha hefur ekki gefið út plötu síðan 2012 en árið 2014 lagði lögmaður hennar fram kæru fyrir hennar hönd gegn Dr. Luke fyrir ítrekað kynferðislegt ofbeldi. Dómstólar eiga enn eftir að taka afstöðu til þess hluta kærunnar
Þá hafa söngkonurnar Demi Lovato, Ariana Grande, JoJo, Lily Allen, Halsey, Sara Bareilles og Lady Gaga allar lýst yfir stuðningi við Kesha ásamt Adele sem tileinkaði Brit verðlaunum sínum Kesha. Þá hafa hópar einnig safnast saman fyrir utan höfuðstöðvar Sony í New York og mótmælt.
Það vakti athygli fyrr í vikunni þegar að söngkonan Kelly Clarkson gagnrýndi Dr. Luke opinberlega en hann ber ábyrgð á stórsmellum söngkonunnar Since U Been Gone og My Life Would Suck Without You. Sagði Clarkson Dr. Luke bæði „lítilmannlegan“ og með „slæmt eðli“.
Sagði hún einnig að útgáfufyrirtækið RCA, sem tilheyrir Sony Music, hafi lengi þrýst á hana um að vinna með Dr. Luke.
„Hann er hæfileikaríkur en hann laug mikið,“ sagði Clarkson. „Ég hef lent í nokkrum mjög slæmum aðstæðum með honum. Tónlistarlega séð var þetta mjög erfitt því hann lýgur bara að fólki,“ sagði Clarkson og bætti við að það væri erfitt að vinna með Dr. Luke.