Leikarinn Adam Driver getur ekki beðið eftir því að tökur á nýjustu Stjörnustríðsmyndinni hefjist, en hann mun endurtaka hlutverk sitt sem Kylo Ren.
„Þeir eiga ennþá í stríði. Þetta er enn „Stjörnustríð“ sagði leikarinn í gamansömum tón í viðtali við Entertainment Weekly án þess að vilja gefa mikið uppi.
Nýr leikstjóri, Rian Johnson, er tekinn við af J.J. Abrams sem var við stjórnvölinn við Star Wars: The Force Awakens. Driver ber honum vel söguna, auk þess sem hann segir handritið að nýju myndinni vera frábært.
„Ég get ekki beðið eftir því að fara í upptökuver vegna þess að [Rian] er svo yfirlætislaus og vel gefinn, en auk þess er afar auðvelt að nálgast hann. Handritið er síðan algerlega frábært.“
Áætlað er að nýjasta kvikmyndin í Stjörnustríðsbálkinum verði frumsýnd í desember á næsta ári.