Tónlistarmaðurinn Prince fannst látinn á heimili sínu í Minnesota í Bandaríkjunum í dag. Hann var 57 ára gamall. Greint var frá því fyrr í dag að lögregla í Minnesotaríki Bandaríkjanna væri að rannsaka dauðsfall á heimili ofurstjörnunnar í Carversýslu í ríkinu en ekki var gefið upp hver væri hinn látni.
Fljótlega fóru þó fjölmiðlar vestanhafs og í Bretlandi að greina frá því að það hefði verið Prince sjálfur sem fannst látinn á heimili sínu í morgun. Í frétt Daily Mail kemur fram að Prince hafi verið lagður inn á spítala fyrir sex dögum vegna flensu.
Það var síðan fjölmiðlafulltrúi Prince sem staðfesti í samtali við fréttastofuna AP að hann væri látinn.
CNN greinir frá því að fyrr í mánuðinum hafi Prince sagst ekki vera heill heilsu og aflýst að minnsta kosti einum tónleikum í Atlanta. Nokkrum dögum síðar, eða 14. apríl síðastliðinn, kom hann þó fram í borginni. Eftir þá tónleika þurfti einkaþota söngvarans að nauðlenda vegna veikinda hans. Talskona söngvarans neitaði þó að hann væri alvarlega veikur.
Prince kom síðast fram opinberlega á laugardaginn í Paisley Park-upptökuverinu sem er í eigu söngvarans en það er á sömu lóð og heimili hans. Þar fullvissaði hann aðdáendur sína um að hann hefði það gott eftir að hafa farið á sjúkrahús daginn áður. „Bíðið í nokkra daga áður en þið farið að biðja fyrir mér,“ sagði hann við áheyrendur. Þetta kemur fram í frétt á vef Minnesota Public Radio.
Prince hlaut sjö Grammyverðlaun á ferlinum en hefur verið tilnefndur 30 sinnum. Þá hlaut hann Óskarsverðlaun árið 1985 fyrir lag sitt Purple Rain.
Fréttin verður uppfærð.