Rannsóknarlögreglumenn í Minnesota í Bandaríkjunum hafa nú yfirheyrt lækni sem hitti tónlistarmanninn Prince tvisvar í vikunni sem hann dó í síðasta mánuði. BBC vitnar í lögregluskjöl þar sem segir að læknirinn, Michael Schulenberg, hafi skrifað upp á lyf fyrir söngvarann 20. apríl, daginn áður en hann dó. Ekki kemur þó fram hvaða lyf það voru eða hvort Prince hafi tekið þau.
Lögregla hefur einnig gert aðra húsleit á heimili söngvarans í Minneapolis og gerðu þar upptækar læknaskýrslur frá sjúkrahúsinu þar sem Schulenberg starfar.
Lyfseðilsskyld verkjalyf voru í vörslu söngvarans þegar hann lést en ekki hefur fengist staðfest að þau hafi haft áhrif á dauða hans.
Lögregla hefur þó útilokað að Prince hafi fyrirfarið sér en það mun taka nokkrar vikur að fá endanlegar niðurstöður úr krufningu.