Íslenskir álfar - óárennilegt afl

Þessi mynd, sem tekin var 22. apríl 2016, er sögð …
Þessi mynd, sem tekin var 22. apríl 2016, er sögð sýna álfahöll í Reykjavík. AFP/Halldór Kolbeins

Álfar hafa ávallt átt heima í þjóðsögum Íslendinga en íbúar landsins munu tjá þér í fullri einlægni að þeir birtist reglulega þeim sem kunna að sjá þá. Þannig hefst umfjöllun AFP um íslenska álfa, en þar segir m.a. að álfar séu áhrifavaldur í daglegu lífi á Íslandi; framkvæmdastaðir séu færðir til að styggja þá ekki og sjómenn neiti að leggja úr höfn vegna viðvarana þeirra.

En eru þeir til, í alvöru? spyr blaðamaðurinn Hugues Honore.

Haft er eftir Magnúsi Skarphéðinssyni, skólastjóra Álfaskólans, að svarið sé sannarlega „já“ en hann er sagður hafa safnað vitnisburði um tilvist álfa í áratugi.

„Það leikur enginn vafi á því að þeir eru til!“ segir Magnús og ávarpar „nemendur“ sína, sem flestir eru ferðamenn sem hafa heillast af álfatrú Íslendinga.

Og hvað er þá álfur, nákvæmlega? Velmeinandi vera, minni en manneskja, sem býr úti í náttúrunni og talar venjulega ekki. Blaðamaður AFP segir að ekki megi rugla saman álfum og huldufólki, sem svipar til mannfólks og talar flest íslensku.

Magnús Skarphéðinsson.
Magnús Skarphéðinsson. AFP/Halldór Kolbeins

Viðvörun frá álfunum

Til að sannfæra efasemdamenn hefur Magnús eftir tveimur „vitnum“.

Í fyrri sögunni segir frá konu sem þekkti sjómann sem gat séð álfa sem einnig stunduðu sjóinn. Einn morgun í febrúar 1921 veitti hann því athygli að þeir sýndu ekki á sér fararsnið og reyndi sjómaðurinn að sannfæra aðra veiðimenn um að halda kyrru fyrir vegna þessa. En forystumaður þeirra vildi ekki hlusta.

Þann dag gerði óvenjuillt veður en sjómennirnir, sem höfðu hlýtt viðvörunum félaga síns og haldið sig skammt frá landi, komu allir heim heilir á húfi.

Sjá árum seinna, í júní 1928, gerðist það aftur að álfarnir héldu sig heima fyrir, sem þótti ruglingslegt þar sem það hafði aldrei gert vonskuveður á þeim árstíma. Sjómennirnir héldu út, tilneyddir, sigldu lygnan sjó en höfðu lítið upp úr krafsinu.

„Álfarnir vissu það,“ segir Magnús.

Hitt vitnið sem hann hefur eftir er kona á áttræðisaldri, sem hitti fyrir táning árið 2002 en sá sagðist þekkja hana. Konan spurði hann hvar þau hefðu hist og hann gaf henni upp heimilisfang þar sem hún hafði búið 53 árum áður; á sama stað og dóttir hennar sagðist hafa leikið við ósýnilegan dreng.

„En mamma, þetta er Maggi!“ sagði dóttirin þegar móðir hennar lýsti táningnum fyrir henni.

„Hann hafði elst fimm sinnum hægar en manneskja,“ segir Magnús.

Kennslustund í Álfaskólanum.
Kennslustund í Álfaskólanum. AFP/Halldór Kolbeins

Samningaviðræður um grjót

Í umfjöllun AFP segir að samkvæmt könnunum trúi helmingur íslensku þjóðarinnar á tilvist álfa.

„Flestir segjast hafa heyrt um þá hjá ömmum sínum og öfum þegar þeir voru börn,“ segir Michael Herdon, 29 ára bandarískur ferðamaður, sem er meðal „nemenda“ Álfaskólans.

Haft er eftir Iceland Magazine að samkvæmt þjóðháttarfræðingum sé fágætt að finna Íslending sem raunverulega trúir á álfa, og þá sé erfitt að fá þá til að viðurkenna það.

Sama gildir um byggingaframkvæmdir.

Það kann að þykja hlægilegt, skrifar Honore, en tillit er tekið til heimkynna álfa í hvert sinn sem ráðist er í framkvæmdir í stórkostlegri náttúru Íslands.

Magnús rifjar upp hvernig álfar gripu inn í vegaframkvæmdir árið 1971. Ítrekaðar truflanir urðu á framkvæmdum vegn þess að álfarnir vildu ekki að stórt grjót, heimili þeirra, yrði látið víkja fyrir nýja veginum.

„Á endanum gerðu þeir samkomulag um að álfarnir myndu yfirgefa grjótið í viku, og að þeir myndu færa það um 15 metra. Þetta er líklega eina landið í heiminum þar sem stjórnvöld eiga í opinberum viðræðum við álfa,“ segir Magnús.

Ísland er hins vegar ekki eina landið þar sem álfa er að finna, segir hann, en Íslendingar eru sérlega móttækilegir hvað varðar tilvist þeirra.

„Ástæðan er sú að Upplýsingin barst seint til Íslands,“ segir Magnús. „Í öðrum löndum, þar sem vestrænn vísindahroki og afneitun alls sem menn hafa ekki uppgötvað sjálfir viðgengst, segja þeir vitni þjást af ofskynjunum.“

AFP hefur eftir Magnúsi Skarphéðinssyni að Ísland sé eina landið …
AFP hefur eftir Magnúsi Skarphéðinssyni að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem stjórnvöld eiga í opinberum viðræðum við álfa. AFP/Halldór Kolbeins



mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio