Stúlka gæti átt tilkall til hluta af auðæfum söngvarans Prince. Hún er sögð vera barnabarn hálfbróður Prince, Duanes Nelsons. Líkt og áður hefur komið fram gerði söngvarinn ekki erfðaskrá áður en hann lést en að öllu óbreyttu eru erfingjar tónlistarmannsins alsystir hans og fimm hálfsystkini.
Nelson og sonur hans eru látnir. Lögfræðingur hefur lagt fram gögn því til sönnunar að stúlkan sé réttmætur erfingi Prince. Talið er að hún sé yngri en sextán ára.
Carlin Q. Williams, sem nú afplánar 92 mánaða dóm fyrir ólögmæta eign skotvopna, heldur því fram að hann sé sonur söngvarans Prince og þar með einkaerfingi.
Williams, sem fæddist árið 1977, segir að móðir sín hafi eytt nótt með söngvaranum í Kansas árið 1976. Ástafundirnir eiga að hafa átt sér stað áður en frægðarsól söngvarans reis, þegar hann var 18 ára.
Nýverið úrskurðaði dómstóll í Minnesota að lögmönnum, sem vinna að því að greiða úr álitamálum er varða dánarbú söngvarans, verði gert heimilt að nálgast blóðsýni úr honum ef framkvæma þurfi faðernispróf.