Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, birti nú í morgun mynd af sér á Snapchat-reikningi sínum þar sem hann skartar skeggi. Sigmundur hefur oftast verið skegglaus, að minnsta kosti þegar hann kemur fram opinberlega.
Sigmundur fór í frí frá þingstörfum fljótlega eftir að hann sagði af sér sem forsætisráðherra vegna afhjúpana úr Panama-skjölunum svokölluðu. Hann hefur nú verið í leyfi í um sjö vikur en Hjálmar Bogi Hafliðason tók sæti hans á þingi á meðan.
Sigmundur Davíð verður gestur Páls Magnússonar í Sprengisandi í dag en hann hefur lítið sem ekkert tjáð sig opinberlega eftir að hann vék úr embætti forsætisráðherra.
Ekki liggur fyrir hvort Sigmundur verði á boðuðum þingfundi í kvöld vegna haftafrumvarpsins eða hvort hann muni skarta sama skeggi og hann sýnir á Snapchat áfram.