Fyrsti þáttur The Grand Tour í stjórn Top Gear-tríósins; þeirra Jeremy Clarkson, James May og Richard Hammond, verður tekinn upp í Suður-Afríku í júlí.
Um þetta tilkynnti Amazon Prime, streymisveitan sem tryggði sér sýningarrétt bílaþáttar með félögunum eftir að Clarkson var rekinn frá Breska ríkisútvarpinu, BBC, á síðasta ári eftir að hafa kýlt framleiðanda Top Gear.
Frétt mbl.is: Top Gear-tríóið með nýjan þátt
Í þættinum verður félögunum fylgt eftir á ferðalagi þeirra um heiminn. „Svo hér erum við. Fyrsta stopp langferðarinnar er Jóhannesarborg. Um miðjan júlí,“ skrifaði Clarkson á Twitter-síðu sína í dag.
So there we are. First stop on our Grand Tour is Johannesburg. Mid July. Details on how to get tickets follow shortly.
— Jeremy Clarkson (@JeremyClarkson) June 2, 2016
Clarkson var rekinn úr Top Gear þáttunum eftir að hann tilkynnti stjórn BBC að hann hefði öskrað á og kýlt Oisin Tymon, framleiðanda þáttanna, í andlitið með þeim afleiðingum að Tymon fékk sprungna vör.
Sagði BBC þá að það myndi ekki endurnýja samninginn við Clarkson eftir 12 ár á skjánum og hættu þeir May og Hammond hjá BBC í kjölfarið. Yfir milljón undirskriftir söfnuðust þar sem farið var fram á að Clarkson yrði ráðinn aftur.
Um 350 milljónir manna horfðu á tríóið í hverri viku þar sem þeir skoðuðu bíla og gerðu á þeim ýmsar kúnstir. Var þátturinn vinsælasti raunveruleikaþáttur í heimi.