Íslandsstofa fer með verkefnisstjórn landkynningarverkefnis fyrir hönd Íslands í tengslum við Evrópumótið í fótbolta sem fram fer í Frakklandi. Flestallar þátttökuþjóðirnar taka þátt í verkefninu sem er skipulagt af Parísarborg. Á ráðhústorginu verður reist sannkallað Evrópuþorp og mun Ísland þar líklega skera sig úr.
„Við vinnum að þessu í samstarfi við sendiráðið úti og svo koma að þessu þrjú ráðuneyti á Íslandi“ segir Margrét Helga Jóhannsdóttir hjá Íslandsstofu sem fer fyrir verkefninu. „Á meðan að hinar þjóðirnar eru að leigja gám hjá Parísarborg og skreyta þá erum við með lítið hús sem við eigum, rautt sætt timburhús með hvítum gluggakörmum og torfþaki.“ Húsið er ekta íslenskt og er í eigu Íslandsstofu og verður það flutt til Parísar þar sem það mun sæma sig vel á torginu. Þar verður mikið matar- menningar- og landkynningarverkefni í gangi og mun Íslandsstofa dreifa kynningarefni um Ísland og íslenska náttúru auk upplýsinga um íslenska fótboltann og KSÍ.
Á svæðinu verður að sjálfsögðu öllum öryggisráðstöfunum fylgt en gríðarlegar öryggisráðstafanir eru í Frakklandi vegna mótsins og yfirvofandi hryðjuverkaógnar. Svæðið verður afgirt og þangað fer enginn inn án þess að fara í gegnum öryggisgæslu við innganginn að torginu.
Í fyrstu stóð til að Evrópuþorpið yrði sett upp við Signubakka 10. júní en vegna aðstæðna við ána sem flæddi vel yfir bakka sína úrkomumiklu veðri í aðdraganda mótsins var ákveðið að færa þorpið á ráðhústorgið og seinkar opnun þess til 18. júní sökum þessa. Það kemur þó ekki í veg fyrir að haldið verði upp á lýðveldisdaginn 17. júní þar sem hljómsveitirnar ADHD og President Bongo & The Emotional Carpenters munu koma fram.
Meðan á keppninni stendur verður íslensk menning á boðstólum fyrir gesti og gangandi á ráðhústorginu. Saxafón og harmonikku hljómur við íslenska húsið, Snorri Helgason tónlistarmaður kemur fram, Viktor Örn Andrésson matreiðslumeistari eldar fyrir erlenda matarblaðamenn og haldið verður prjónanámsskeið svo fátt eitt sé nefnt.
Í hinum borgunum þar sem Ísland spilar leiki verður einnig dagskrá í tengslum við mótið og íslenska menningu. Í St Etienne verður slegið til bókmenntaveislu þar sem Hallgrímur Helgason og Steinunn Sigurðardóttir verða með upplestur úr sínum verkum. Það er Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sem mun opna hátíðina en han mun einnig opna samtímalistahátíðina Air d‘Islande í Marseille þar sem skautklædd fjallkonan stígur á stokk á lýðveldisdaginn.
Á samfélagsmiðlum Íslandsstofu verður hægt að fylgjast nánar með dagsskránni og því um að gera fyrir Íslendinga sem staddir verða í Frakklandi að kynna sér það sem verður um að vera.