„Þetta eru lög sem fæðast í kringum það tímabil þegar kærastan mín var erlendis og ég einn og einmana, þunglyndur, graður og ástfanginn,“ segir tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson sem kemur fram undir listamannsnafninu Auður á Secret Solstice í kvöld. Auður mun spila á sviðinu Ragnarök klukkan 19:30 í kvöld.
Verkefnið Auður var frumsýnt á Airwaves í nóvember en síðan þá hefur verið mikið að gera hjá listamanninum. „Ég var að spila í Los Angeles og Ósló núna á þessu ári og það var ógeðslega gaman,“ segir Auðunn. Þá er hann einnig að vinna í nokkrum hliðarverkefnum með tónlistarmönnum á borð við Bent og Emmsjé Gauta.
Hann lofar þéttu prógrammi í kvöld en lögin voru flest samin á því tímabili sem Auðunn var einn á Íslandi meðan kærasta hans var að ferðast um Suður-Ameríku. „Hún er alveg stórkostleg, hún er gyðjan mín.“