Á dögunum hófu bílaþættirnir Top Gear göngu sína á ný, en nýir kynnar sitja nú við stjórnvölinn.
Ekki hefur þó gengið sem best verður á kosið hjá Chris Evans og Matt LeBlanc, sem tóku við keflinu af Jeremy Clarkson og félögum. Í raun hefur áhorf á þættina hríðfallið, en samkvæmt mælingum fylgdust einungis 2,3 milljónir manna með fjórða þættinum sem sendur var út í gær.
Samkvæmt frétt Mirror hafa áhorfstölurnar lækkað töluvert á milli vikna, en 2,4 milljónir fylgdust með þriðja þættinum sem sýndur var fyrir rúmri viku.
Frétt mbl.is: Áhorf á Top Gear hríðféll
Nýja þáttaröðin hefur hlotið fremur slaka dóma og hafa gárungar jafnvel tekið upp á því að kalla þættina „Flop Gear“.
Þættirnir nutu þó töluverðra vinsælda þegar þeir voru undir stjórn Jeremy Clarkson, James May og Richard Hammond. Þremenningarnir færðu sig yfir til efnisveitunnar Amazon Prime í kjölfar uppsagnar Jeremy Clarksons, þar sem þeir munu stýra nýjum bílaþætti.