Söngkonan Judith Hill var á ferð með Prince þegar flugvél hans þurfti að nauðlenda í Illinois viku fyrir andlát hans. Söngvarinn var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús, þaðan sem hann var síðan útskrifaður þremur klukkustundum síðar.
Viku síðar fannst Prince látinn á heimili sínu, en hann hafði tekið inn of stóran skammt ópíumskyldra verkjalyfja.
Hill var einn af þremur farþegum flugvélarinnar en með í för var einnig góðvinur söngvarans, Kirk Johnson.
Eftir að hafa snætt kvöldverð með söngvaranum sagði Hill að augu hans hefðu frosið og ef hún hefði ekki horft beint framan í hann hefði hún eflaust haldið að hann væri sofandi.
„Ég hélt að hann væri farinn, við vorum ekki með neitt um borð sem gat hjálpað honum,“ sagði söngkonan í samtali við New York Times.
Hill og Johnson gerðu flugstjóra vélarinnar umsvifalaust viðvart um ástand söngvarans, sem í kjölfarið sendi flugumferðarstjóra í Chicago hjálparbeiðni.
„Við vissum að það væri aðeins tímaspursmál. Við þurftum að lenda.“
Flugvélin nauðlenti síðan í Illinois, þar sem sjúkrabíll tók á móti söngvaranum. Prince var sprautaður með lyfinu Narcan, sem notað er við ofskömmtum ópíumskyldra lyfja, og fluttur á spítala að því loknu.
Hill segir að Prince hafi verið kominn til meðvitundar þegar á sjúkrahúsið var komið. Þá segir hún söngvarann einnig hafa verið afar samvinnuþýðan og tilbúinn að leita sér hjálpar.